VEL HEPPNUÐ VORHÁTÍÐ Í BLÍÐSKAPARVEÐRI

Árleg vorhátíð skólans var haldin í dag laugardag í blíðskaparveðri. Vorhátíðin er samstarfsverkefni nemenda, starfsmanna og foreldra en auk þeirra kom Frístundamiðstöðin 101 að hátíðinni. Hátíðin hófst á skrúðgöngu en að henni lokinni sungu nemendur í 1. og 2. bekk nokkur lög fyrir gesti. Að því loknu skoðuðu hátíðargestir verkefni nemenda sem voru til sýnis í kennslustofum og á göngum, heimsóttu skólamunastofu eða þáðu andlitsmálningu. Veitingasala og fatamarkaður var fyrir framan Spennistöð og útikaffihús í skólaporti. Hátíðinni lauk með því að hljómsveitin Spaðabanar lék fyrir gesti. Það var mál manna að hátíðin hafi verið sérstaklega afslöppuð og skemmtileg í ár. Er öllum þátttakendum vorhátíðar auk þeim foreldrum og starfsmönnum sem unnu að undirbúningi hátíðarinnar þakkað sérstaklega fyrir hve vel tókst til.