OLWEUS

Aðgerðaáætlun Olweusar gegn einelti

Austurbæjarskóli innleiddi Olweusarkerfið í skólann á árunum 2002-2004. Skólinn er virkur þátttakandi í verkefninu og beitir aðferðafræði Olweusar við úrlausn eineltismála og í forvörnum gegn einelti.

Olweusarætlunin erlendis
Áætlunin byggir á áralöngum viðamiklum rannsóknum á einelti í Svíþjóð og Noregi. Á bak við hana stendur hópur sérfræðinga undir stjórn Dan Olweus sálfræðings og prófessors við háskólann í Bergen. Áætlunin hefur verið prófuð við marga skóla, m.a. í Bandaríkjunum þar sem hún var valin ein af tíu bestu úr hópi 400 slíkra áætlana. Í landsátaki gegn afbrotum unglingaí Noregi árið 2005 var áætlunin valin virkasta forvörnin í skólum landsins og þeir studdir í að innleiða hana.

Olweusaráætlunin á Íslandi
Á Íslandi eru margir skólar þátttakendur í Olweusaráætluninni, þ.á.m. Austurbæjarskóli frá árinu 2002. Menntamálaráðuneytið, Samband sveitarfélaga, Kennaraháskólinn og Kennarasamband Íslands standa að verkefninu á Íslandi. Framkvæmdastóri þess er Þorlákur Helgason félagsfræðingur. Nánari upplýsingar er að finna á www.olweus.is

Olweusaráætlunin í Austurbæjarskóla
Aðgerðaáætlunin er í rauninni kerfi sem innleitt var í skólann á tímabilinu nóvember 2002 til maí 2004. Innleiðingin fólst í endurmenntun og virkri þátttöku allra starfsmanna skólans. Tvær kannanir voru lagðar fyrir nemendur í 4. – 10. bekk á tímabilinu til að kortleggja einelti í skólanum. Sú fyrri var lögð fyrir í nóvember 2002 og sú seinni var lögð fyrir í desember 2003. Dregið hafði úr einelti um þriðjung á tímabilinu, úr 9,9% í 6,6%. Síðan þá hefur könnunin verið lögð fyrir árlega. Árið 2012 mældist einelti 4,5 % í 4. - 10. bekk og 2,1% 2013. Markvisst er unnið að forvörnum í öllum bekkjum skólans, en ætíð er óvíst frá ári til árs hver niðurstaðan er. Að meðaltali má segja að dregið hafi úr einelti um helming frá því að áætlunin var innleidd. Árið 2013 mældist einelti 3,3% í 4. - 10. bekk á móti 9,9% árið 2002: Þrefalt minna en áður en markvisst forvarnarstarf hófst.

Megininntak áætlunarinnar er fræðsla. Allir starfsmenn skólans fá fræðslu um það ,hvað einelti er, hvernig unnt er að vinna gegn því og hvernig skuli bregðast við því þegar það á sér stað.Starfsmenn fá einnig handbók sem vinna skal eftir. Samfara fræðslunni fer fram stöðug endurskoðun á félagslegu umhverfi í skólanum. Meginstoðir kerfisins eru bekkjarreglur, bekkjarfundir, stöðug fræðsla og opin umræða. Verkefnisstjóri, stýrihópur undir stjórn skólastjóra og eineltisteymi halda utan um verkefnið. Niðurstaðan á að verða skólaumhverfi sem einkennist af:

* hlýju og hlutdeild fullorðinna 

* virku eftirliti fullorðinna í skólanum og á skólalóðinni

* föstum römmum vegna óviðunandi atferlis

* viðurlögum vegna óviðunandi atferlis

• virkri hlutdeild nemenda með t.d. föstum bekkjarfundum