Stuðningur í námi
Meginmarkmið stefnu Reykjavíkurborgar er að stuðla að sem bestri þjónustu við nemendur með sérþarfir í grunnskólum borgarinnar, uppfylla markmið laga og Aðalnámskrár um kennslu í samræmi við eðli og þarfir nemenda og að nýta fjármagn til sérkennslu sem best.
Þeir sem ekki fylgja námsframvindu sem getur talist eðlileg miðað við aldur fá meiri stuðning og námsaðstoð eftir þörfum. Við úthlutun sérkennslu- og stuðningsfulltrúatímum liggja greiningar, skimanir, námsmat og beiðnir umsjónarkennara og foreldra með rökstuðningi til grundvallar.
Samkvæmt Lögum um grunnskóla nr. 91/2008 á skólinn „að haga störfum sínum í sem fyllstu samræmi við stöðu og þarfir nemenda og stuðla að alhliða þroska, velferð og menntun hvers og eins.” Í reglugerð um nemendur með sérþarfir nr. 585/2010 er áréttað að allir nemendur eigi að fá “jöfn tækifæri á eigin forsendum til náms og virkrar þátttöku í grunnskólum án aðgreiningar þannig að komið sé til móts við náms-, líkams-, félags- og tilfinningalegar þarfir þeirra.”
Námsver skólans eru tvö, fyrir eldri og yngri nemendur. Þar starfa sérkennarar, atferlisfræðingur, þroskaþjálfi og stuðningsfulltrúar. Nýbúaver eru tvö, annað fyrir eldri nemendur, hitt fyrir yngri. Samráðsfundir eru haldnir vor og haust um málefni nemenda.
Þjónustumiðstöð Miðborgar og Hlíða veitir skólanum sérfræðiþjónustu; kennsluráðgjöf, sálfræðiþjónustu, félagsráðgjöf, frístunda- og forvarnaráðgjöf og stuðning við nemendur með ýmsan vanda s.s. mætingar.
Hlutverk sérfræðiþjónustu grunnskóla er að styðja við nám allra nemenda í grunnskólum. Verkefni sérfræðiþjónustu snúa bæði að nemendum og starfsfólki í skólunum og byggja að mestu á ákvæðum reglugerðar 584/2010 um sérfræðiþjónustu sveitarfélaga og nemendaverndarráð og reglugerðar 585/2010 um nemendur með sérþarfir.
Austurbæjarskóli á í nánu samstarfi við og sækir þjónustu sálfræðinga, félagsráðgjafa og kennsluráðgjafa til Þjónustumiðstöðvar Miðborgar og Hlíða. Faglegt starf ráðgjafanna er fjölþætt og snýr meðal annars að ýmsum greiningum, ráðgjöf og almennri sálfræðiþjónustu. Skilyrði fyrir því að sálfræðingur taki mál til vinnslu er að foreldrar veiti samþykki sitt á sértöku tilvísunareyðublaði sem fyllt er út í samvinnu við umsjónarkennara. Allar tilvísanir fara fyrir nemendaverndarráð. Eyðublaðið er hægt að nálgast hjá umsjónarkennurum og skrifstofu skólans.
Í Austurbæjarskóla fer nám nemenda fram í bekk eða í námshópum. Lögð er áhersla á sveigjanlega starfshætti og það viðurkennt að nemendur eru misfljótir að ná settum markmiðum. Sérkennsla felur í sér breytingar á námsmarkmiðum og/eða kennsluaðferðum miðað við það sem öðrum nemendum á sama aldri er boðið upp á. Sérkennsla er skipulögð til lengri eða skemmri tíma, allt eftir þörfum nemenda. Austurbæjarskóli hefur á að skipa fjölbreyttum sérkennsluúrræðum og er litið svo á að sérkennsla sé stuðningur við nemanda eða hóp nemenda sem þarfnast tímabundinnar aðstoðar eða samfellds stuðnings um lengri tíma.
Sérkennsla felur í sér breytingar á námsmarkmiðum og/eða kennsluaðferðum miðað við það sem öðrum nemendum á sama aldri er boðið upp á. Sérkennsla er skipulögð með ýmsum hætti. Nemendur fá aðstoð innan og utan bekkja, kennslu í smærri hópum og/eða einstaklingskennslu. Nemendur sem njóta sérkennslu stunda nám samkvæmt einstaklingsnámskrá.
Þegar það á við nýtir skólinn sér ráðgjöf og þjónustu Brúarskóla. Þegar sótt er um fyrir nemendur í slíkt sérúrræði eða sérskóla er umsókn unnin í samstarfi við forráðamenn nemandans og hafa þá öll úrræði skólans verið reynd til þrautar.
Hér má sjá heildaráætlun skólans um stuðning í námi og kennslu. Heildaráætlun 2022-2023
Grunnvandi | Fyrsta skref
Leitað skýringa. Kennari skráir í dagbók í Mentor. |
Annað skref
Upplýsingaöflun og ráðgjöf. Úrræði. |
Þriðja skref
Úrræði. |
Námsvandi | Kennari í samvinnu við nemanda og foreldra. Umsjónarkennari og verkefnastjóri koma að máli ef þarf.
|
Fundur kennara, sérkennara og verkefnastjóra stigs ásamt skólastjórnendum. | Nemendaverndarráð. |
Hegðun | Kennari í samvinnu við nemanda og foreldra. Umsjónarkennari og verkefnastjóri koma að máli ef þarf.
|
Kennarar viðkomandi skólastigs, umsjónar kennarar, skólastjórnendur. | Nemendaverndarráð |
Félagslegur vandi | Kennari í samvinnu við nemanda og foreldra. Umsjónarkennari og verkefnastjóri koma að máli ef þarf.
|
Kennarar viðkomandi skólastigs, umsjónarkennari, verkefnastjóri, skólastjórnendur. | Nemendaverndarráð. |
Tilfinningalegur og geðrænn vandi | Kennari í samvinnu við nemanda og foreldra. Umsjónarkennari og verkefnastjóri koma að máli ef þarf.
|
Kennarar viðkomandi skólastigs, umsjónarkennari, verkefnastjóri, skólastjórnendur. | Nemendaverndarráð. |
Skólasókn | Kennari í samvinnu við nemanda og foreldra. Umsjónarkennari og verkefnastjóri koma að máli ef þarf.
|
Umsjónarkennari, skólaritari, skólastjórnendur | Nemendaverndarráð. |
Líkamlegur vandi | Kennari í samvinnu við nemanda og foreldra. Umsjónarkennari og verkefnastjóri koma að máli ef þarf.
|
Hjúkrunarfræðingur. | Nemendaverndarráð. |
Einelti | Umsjónarkennarar.
|
Eineltisteymi. | Nemendaverndarráð.
|
Áföll | Umsjónarkennarar.
|
Áfallaráð. | Nemendaverndarráð.
|
Stoðkerfi skólans miðar að því að veita nemendum og kennurum sem bestan stuðning og fjölbreytt úrræði samkvæmt fjölmenningarlegum skóla án aðgreiningar. Tekið er á málum í samvinnu samkvæmt ferilblaði.
Sérkennsluþörf nemenda grundvallast á faglegu mati, greiningum og niðurstöðum skimana og könnunarprófa. Hér má sjá yfirlit yfir þær skimanir og könnunarpróf sem lögð eru fyrir.
1. bekkur
- Boehm. Prófið prófar hugtakaskilning nemenda
- Tove Krogh. Prófið er teikniverkefni sem prófar mál- og talnaskilning
- Læsi 1. Lestrarskimum hefti 1, 2 og 3
- Milli mála. Málþroskapróf ætlað nemendum með annað mál
- Lestrarpróf eru lögð fyrir nemendur þrisvar sinnum á ári
2. bekkur
- Læsi 2. Lestrarskimum hefti 1 og 2
- Milli mála. Málþroskapróf ætlað nemendum með annað mál
- Lestrarpróf eru lögð fyrir nemendur þrisvar sinnum á ári
- Aston Index. Stafsetningarhluti
3. bekkur
- Talnalykill. Stærðfræðiskimun fyrir 3. bekk
- Aston Index. Stafsetningarhluti
- Milli mála. Málþroskapróf ætlað nemendum með annað mál
- Hraðlestrarpróf eru lögð fyrir nemendur þrisvar sinnum á ári
- LH60. Próf sem prófar lestarhæfni þ.e. hraða og skilning
4. bekkur
- Samræmd könnunarpróf í íslensku og stærðfræði
- Aston Index. Stafsetningarhluti.
- Milli mála. Málþroskapróf ætlað nemendum með annað mál
- Hraðlestrarpróf eru lögð fyrir nemendur þrisvar sinnum á ári
5. bekkur
- GPR-10 Greinandi ritunarpróf sem lagt er fyrir þá nemendur sem ástæða þykir að prófa
- Aston Index. Stafsetningarhluti.
- Milli mála. Málþroskapróf ætlað nemendum með annað mál
- Hraðlestrarpróf eru lögð fyrir nemendur þrisvar sinnum á ári
- Orðarún. Lesskilningspróf
6. bekkur
- Aston Index. Stafsetningarhluti.
- Milli mála. Málþroskapróf ætlað nemendum með annað mál
- Hraðlestrarpróf eru lögð fyrir nemendur þrisvar sinnum á ári
- Orðarún. Lesskilningspróf
- LH40. Próf sem prófar lestarhæfni þ.e. hraða og skilning
7. bekkur
- Aston Index. Stafsetningarhluti.
- Milli mála. Málþroskapróf ætlað nemendum með annað mál
- Lestrarpróf eru lögð fyrir nemendur þrisvar sinnum á ári
- Samræmd könnunarpróf í íslensku og stærðfræði
- Orðarún. Lesskilningspróf
8. bekkur
- Milli mála. Málþroskapróf ætlað nemendum með annað mál
9. bekk
- GPR-14 Greinandi ritunarpróf.
- Milli mála. Málþroskapróf ætlað nemendum með annað mál
10. bekk
- Samræmd könnunarpróf í íslensku, stærðfræði og ensku
- Milli mála. Málþroskapróf ætlað nemendum með annað mál
Þeir nemendur sem taldir eru hafa leshömlun (dyslexiu) eru greindir með LOGOS greiningartækinu. Sérkennarar vinna greininguna. Ferill skimana
- Skimað
- Niðurstöður greindar
- Niðurstöður ræddar við umsjónarkennara
- Niðurstöður kynntar á stigi
- Niðurstöður einstaka nemenda greindar til aðgerða. Aðgerðarplan útbúið
- Tryggja þarf að unnið sé eftir aðgerðaplaninu
- Foreldrar fá munnlegar upplýsingar/útskýringar á niðurstöðum skimana í foreldraviðtali
- Í lok vetrar fylgir umsjónarkennari aðgerðarplaninu eftir í umsögn.
Hvað varðar samræmdu könnunarprófin í 7.bekk ætti kennari að ræða niðurstöður hinna ýmsu prófþátta við nemandann og hvetja hann til framfara.
Þroskaþjálfi og atferlisþjálfi veita fjölbreytta félagsfærniþjálfun og atferlismótun auk þess að bjóða upp á fjölbreytt einstaklingsmiðuð sérúrræði fyrir nemendur.
Einstaklingsáætlun er áætlun sem nemandi setur sér fyrir ákveðið tímabil í samvinnu við kennara sinn og foreldra, gjarnan í foreldraviðtali og hefur til þess ákveðið eyðublað eða form.
Einstaklingsáætlun tekur almennt mið af getu nemandans, áhuga og námsstíl. Í áætluninni kemur fram hvaða markmiðum nemandinn hyggst ná í einstökum námsgreinum. Í áætluninni er einnig gerð grein fyrir hvernig árangurinn verður metinn.
Einstaklingsnámskrá tekur til námslegra og/eða félagslegra þátta, til hluta eða allra þátta skólaveru nemandans. Námsáherslur, námsefni og kennsluaðferðir eru aðlagaðar þörfum nemandans og í tengslum við líf hans. Námsmarkmið eru skýr og skilgreind. Í námskránni kemur fram hvernig nemandanum er mætt í skóla án aðgreiningar og þar skulu koma fram þær upplýsingar sem gagnlegar eru varðandi nám, skólagöngu og virka þátttöku hans. Í einstaka námsgreinum getur áherslan verið á félagslega færni en í öðrum geta markmið nemandans haft beina skörun við markmið bekkjar- og/eða skólanámskrár.
Eftirfarandi þættir eru hafðir í huga við einstaklingsnámskrárgerð:
1. Heildaraðstæður nemandans.
2. Mat á styrkleikum nemandans og mikilvægustu áskorunum.
3. Teymi og/eða samstarf um nemandann við aðila innan og utan skólans, hverjir, hvernig.
4. Nám og námsaðstæður:
- Hindranir í námsumhverfi, hvernig draga má úr áhrifum þeirra eða ryðja þeim úr vegi.
- Tenging við bekkjar- og aðalnámskrá.
- Námsmarkmið og leiðir.
- Námslegur stuðningur, í hverju felst hann.
- Námsgögn og námsumhverfi.
- Námsmat og mat á framvindu.
5. Félagsstaða og félagslegt umhverfi:
- Hindranir í félagslegu umhverfi, hvernig draga má úr áhrifum þeirra eða ryðja þeim úr vegi.
- Félagsleg markmið og leiðir.
- Námsgögn
- Félagslegur stuðningur, í hverju felst hann.
- Mat á framvindu.
6. Endurmat og ábyrgðaraðilar.
Hlutverk nemendaverndarráðs er að fjalla um málefni einstakra nemenda auk málefna er varða innra starf skólans. Í nemendaverndarráði sitja skólastjóri, aðstoðarskólastjóri, skólahjúkrunarfræðingur, námsráðgjafi, sérkennari auk sálfræðings, félagsráðgjafa og kennsluráðgjafa frá Þjónustumiðstöð Miðborgar og Hlíða. Nánar er kveðið á um hlutverk, skipan og störf nemendaverndarráðs í reglugerð 584/2010.
Teymið veitir kennurum og öðru starfsfólki skólans ráðgjöf vegna vanda sem upp getur komið. Unnið er markvisst að lausnaleit, stig af stigi og eftir hvern fund liggja fyrir hugmyndir af lausnum sem mögulegt væri að nota. Sá sem óskar eftir aðstoð teymis velur sjálfur þá lausn sem hann telur vænlegasta.
Í teyminu sitja 3-4 einstaklingar sem leggja fram mismunandi þekkingu og ábyrgð. Sótt er um aðstoð teymis munnlega til skólastjóra.
Vakni grunur um einelti er strax brugðist við því að hálfu skólans samkvæmt eineltisáætlun.
Áfallaáætlun er ætlað að undirbúa viðbrögð við áföllum. Góður undirbúningur og skipulag eykur hæfni til að bregðast skynsamlega við þegar alvarlegir atburðir gerast. Áfallaráðið sér til þess að áætlunin sé endurskoðuð reglulega. Í ráðinu sitja skólastjóri, aðstoðarskólastjóri, námsráðgjafi og hjúkrunarfræðingur. Teymið leitar ráðgjafar m.a. til Hallgrímskirkju og Þjónustumiðstöðvar Miðborgar og Hlíða.
Verði nemandi fyrir áfalli svo sem ástvinamissi eða skyndilegum veikindum, er æskilegt að foreldrar eða aðstandendur komi þeim upplýsingum til skólans. Best er að greina umsjónarkennara eða skólastjórnendum frá slíku. Upplýsingar sem þessar geta komið í veg fyrir röng viðbrögð starfsmanna.
Um 35% nemenda í Austurbæjarskóla býr við annað móðurmál á heimili. Sú staðreynd skapar skólanum sérstöðu og er íslenskukennsla nemenda sem hafa íslensku sem annað mál því ekki einkamál nýbúakennara heldur sameiginlegt verkefni allra þeirra sem með nemendum starfa. Í skólanum er litið svo á að menningarlegur fjölbreytileiki auðgi skólastarfið og áhersla lögð á að virðing sé borin fyrir uppruna og menningu allra nemenda. Þarfir barna af erlendum uppruna eru misjafnar enda er hópurinn margbreytilegur. Tekið er mið af þessum margbreytileika og námið skipulagt út frá þörfum þeirra hverju sinni. Megináhersla er lögð á fjölbreyttar kennsluaðferðir við íslenskukennsluna innan og utan bekkjar og að því skal stefnt að nemendur af erlendum uppruna standi jafnöldrum sínum jafnfætis í námi.
Meginmarkmið í kennslu nemenda með annað móðurmál eru:
- Að erlendir nemendur öðlist færni í íslensku sem öðru tungumáli.
- Kynna íslenskt skólakerfi og samfélag fyrir nemendum sem eru nýkomnir til landsins. Tryggja félagslega stöðu erlendra nemenda í skólanum.
- Tryggja að erlendir nemendur fái sambærilega menntun og innlendir á meðan þeir eru að tileinka sér færni í íslensku sem öðru tungumáli.
Helstu viðfangsefni í talkennslu eru ýmsir framburðargallar, seinn málþroski og stam. Ekki er starfandi talkennari né talmeinafræðingur í skólanum en á yfirstandandi skólaári er Austurbæjarskóli þátttakandi í þróunarverkefni þar sem talkennsla fer fram í fjarnámi.
Sjúkratryggingar Íslands (SÍ) taka þátt kostnaði við talþjálfun og fer sú þjónusta þá fram hjá sérfræðingum utan skóla. Á heimasíðu Sjúkratrygginga Íslands kemur fram að forsendur fyrir greiðsluþátttöku SÍ í talþjálfun er að fyrir liggi sjúkdómsgreining frá lækni og skrifleg þjálfunarbeiðni frá talmeinafræðingi sem starfar samkvæmt rammasamningi við SÍ.
Áður en þjálfun hefst þarf að liggja fyrir beiðni læknis um talþjálfun. Þá beiðni skal afhenda talmeinafræðingi sem sér um að senda beiðnina til SÍ. Sé beiðni samþykkt fær hinn sjúkratryggði 20 skipti í talþjálfun á hverju 12 mánaða tímabili. Talmeinafræðingur þarf að sækja sérstaklega um heimild til SÍ til meðferða umfram 20 skipti sé þess þörf.
Greiðsluþátttaka SÍ fer eftir gildandi reglugerð um þjálfun sem sjúkratryggingar taka til sem gefin er út af velferðarráðuneyti.
Nemendur sem hafa verið lengi frá skóla vegna veikinda eiga rétt á sjúkrakennslu. Sjúkrakennslan er skipulögð af skólastjóra í samstarfi við viðkomandi kennara.
Þegar óskað er eftir skólavist fyrir erlendan nemanda er:
- Afhent innritunareyðublað sem foreldrar fylla út í skólanum eða heima.
- Ákveðinn tími fyrir móttökuviðtal þar sem foreldrar og nemandi/nemendur mæta ásamt túlki ef þörf krefur.
- Skólinn sér um að panta túlk. Reiknað er með 1-2 klst. í viðtalið.
- Athugað hvort læknisskoðun hafi farið fram. Mælst til þess að foreldrar panti skoðun ef svo er ekki.
- Foreldrar beðnir að hafa meðferðis heilsufarsupplýsingar og einkunnir frá fyrri skóla í móttökuviðtalið.
2. Bekkur valinn
- Deildarstjóri móttökudeildar/skólastjórnandi velur bekk fyrir nemanda.
- Umsjónarkennara tilkynnt um væntanlegan nemanda, hvaðan hann er og hvenær móttökuviðtal fer fram.
- Öðrum kennurum sem kenna bekknum tilkynnt um væntanlegan nemanda.
- Umsjónarkennari undirbýr bekkinn fyrir komu nýs nemanda, tilkynnir öðrum kennurum og foreldrum um komu nýs nemanda í bekkinn.
3. Undirbúningur viðtals
- Deildarstjóri móttökudeildar safnar saman þeim gögnum sem nota á í viðtalinu:
- Skóladagatal, skólareglur, innkaupalisti, upplýsingar um mat og drykk og gæslu ef um ungan nemanda er að ræða.
- Einstaklingsstundaskrá útbúin og ákveðið hvenær nemandinn er með almennum bekk og hvenær hann er ímóttökudeild.
4. Móttökuviðtal
- Viðtalið sitja foreldrar og nemandi/nemendur (ásamt túlki, ef þörf krefur), deildarstjóri móttökudeildar ogumsjónarkennari.
- Í viðtalinu eru fengnar bakgrunnsupplýsingar um nemandann: Fjölskylduhagi, tungumál talað/töluð heima, fyrri skólagöngu, helstu styrkleika/veikleika nemandans og helstu áhugamál.
Eftirfarandi þættir útskýrðir:
Stundaskrá bekkjar/nemanda. Farið yfir hverja kennslustund þannig að ljóst sé um hvaða námsgrein sé að ræða,hvenær nemandinn er í bekk og hvenær í móttökudeild.
Reglur um íþróttir og sund útskýrðar. Staðsetning, fatnaður, reglur um sturtu og mætingar.
Farið yfir innkaupalista. Hvað þarf að kaupa og hvað sér skólinn um að útvega.
Farið yfir skóladagatal og alla sérmerkta daga.
Símanúmer skólans, heimasíða og mentor útskýrð. Einnig viðtalstímar kennara.
Farið yfir skólareglur og mætingaskyldu.
Matur: Hvað er hægt að kaupa í skólanum og hvað má koma með í nesti. Verð á mat og fyrirkomulag greiðslu.
Frístundaheimilið Draumaland kynnt ( ef um ungan nemanda er að ræða).
Ákveðið hvenær nemandi byrjar í skólanum.
Farið í gönguferð um skólann þar sem helstu svæði eru kynnt.
Æskilegt er að heimsækja bekk nemandans og kynna hann fyrir bekknum.
Sjá einnig: Handbók um móttöku innflytjenda sem fengin er af heimasíðu Menntasviðs Reykjavíkurborgar.
Í Austurbæjarskóla er kallað í túlka eftir þörfum enda réttur forelda að njóta slíkrar þjónustu óski þeir þess. Þá er einnig gripið til símatúlka sé erindið þess eðlis.
Sálfræðiþjónusta skólans er á vegum Þjónustumiðstöðar Miðborgar og Hlíða.
Sálfræðingur skólans er Silja Björg Halldórsdóttir. Sálfræðingur vinnur með nemendum sem eiga í sálrænum og félagslegum erfiðleikum. Inngrip sálfræðings felur m.a. í sér athugun og mat á þroska, hegðun og líðan nemandans samkvæmt niðurstöðum úr viðtölum, sálfræðilegum prófum, bekkjar- og atferlisathugunum. Sálfræðingur gerir tillögur til úrbóta og tekur þátt í gerð áætlana um aðstoð við einstaka nemendur í samvinnu við fulltrúa í nemendaverndarráði, kennara og foreldra.
Austurbæjarskóli nýtur þjónustu kennsluráðgjafa og hegðunarráðgjafa frá Þjónustumiðstöð Miðborgar og Hlíða, kennsluráðgjafi skólans er Ásdís Sigurjónsdóttir og hegðunarráðgjafi skólans er María B. Arndal Elínardóttir .