Heilsugæsla
Heilsugæslan Miðbæ sinnir heilsugæslu í Austurbæjarskóla.
Skólahjúkrunarfræðingur starfar við Austurbæjarskóla. Skólaheilsugæsla heyrir undir Heilsugæslustöðina í Miðbæ.
Ef foreldrar eða forráðamenn nemenda vilja hafa samband við hjúkrunarfræðing er hægt að hringja í skólann á viðverutíma eða senda tölvupóst. Farið er með allar upplýsingar sem trúnaðarmál.
Starfsreglur
Við upphaf skólagöngu fær skólahjúkrunarfræðingur heilbrigðisskýrslu barnsins frá þeirri heilsugæslustöð sem hefur þjónað því. Þegar barn flytur á milli skóla fer skýrsla barnsins til viðkomandi skólahjúkrunarfræðings eða heilsugæslustöðvar.
Hlutverk og verkefni skólaheilsugæslu
Heilsugæsla skólabarna er markvisst framhald af ung- og smábarnavernd og á að efla heilbrigði barns og stuðla að vellíðan þess í samvinnu við foreldra. Þjónusta hjúkrunarfræðings miðast við þarfir nemenda. Hér að neðan gefur að líta helstu verkefni.
1.bekkur: Reglubundin viðtöl og skoðanir eru sem hér segir: Þau börn sem ekki hafa fengið fimm ára skoðun fá bólusetningu gegn barnaveiki, stífkrampa og kíghósta auk læknisskoðunar. Foreldrar eru boðaðir með börnunum. Öll 6 ára börn eru heyrnarmæld, sjónprófuð, vigtuð og hæðarmæld.
2. bekkur: Sjónpróf.
3. bekkur: Slysafræðsla.
4. bekkur: Mæld hæð, þyngd og sjónprófað.
5. bekkur: Fræðsla um líkamlegar- og andlegar breytingar svo og um almenna heilsuvernd.
7. bekkur: Skoðun hjúkrunarfræðings, litarskyn athugað. Sjónpróf og hæðarmæling. Bólusetning gegn mislingum, hettusótt og rauðum hundum.
9. bekkur: Heyrnarmæling, sjónpróf, vigtun og hæðarmæling. Fræðsla um ýmsa kvilla, sjúkdóma og heilsuvernd. Viðtal við skólalækni.
10.bekkur: Kynning á heilsugæslu.
Í vinnslu
Hvíld: Að gefnu tilefni vill starfsfólk heilsugæslunnar benda á hve mikilvægt það er að skólabörn fái nægan svefn og hvíld, a.m.k. 9 - 12 klst. á sólarhring.
Næring: Mikilvægt er að börn borði morgunverð og hollan og góðan mat.
Lús
Ef vart verður við lús í hári barns eru foreldrar/forráðamenn beðnir að tilkynna það hið fyrsta til skólans eða skólahjúkrunarfræðings. Til að finna lús þarf að kemba hárið með lúsakambi. Vakin skal athygli á því að samkvæmt dreifibréfi Landlæknisembættisins er hlutverk hjúkrunarfræðinga ekki að kemba hár barna, en þeir veita foreldrum ráðgjöf, leiðbeiningar og stuðning. Ef lús greinist hjá barni lætur skólahjúkrunarfræðingur umsjónarkennarann vita og sendir bréf heim með börnunum um að lús hafi greinst í bekknum. Þá þurfa foreldrar að kemba hár barna sinna og koma með skriflega staðfestingu þess efnis í skólann næsta dag. Sé því ekki sinnt þrátt fyrir ítrekuð tilmæli eiga foreldrar það á hættu að barni þeirra verði vísað heim. Ástæða þess er að ef einu barni er ekki kembt þarf að endurtaka meðferð á öllum bekknum. Benda má á bækling sem fáanlegur er í apótekum og börnum er afhent í fyrsta bekk þar sem bent er á ýmis ráð.
Lyfjagjafir
Samkvæmt fyrirmælum Landlæknisembættisins skulu skólabörn ekki fá önnur lyf í skólanum en þau sem hafa verið ávísað af læknum. Í engum tilvikum getur barn borið ábyrgð á lyfjatökunni, ábyrgðin er foreldra, en skólahjúkrunarfræðingur geta aðstoðað barnið við lyfjatökuna. Börn skulu ekki hafa nein lyf undir höndum.
Slys
Minni háttar óhöppum sem verða á skólatíma sinnir hjúkrunarfræðingur. Þurfi nemandi að fara á heilsugæslustöð eða slysadeild er haft samband við foreldra og því er mikilvægt að hafa símanúmer þeirra bæði heima og í vinnu, einnig GSM númer rétt skráð hjá skólanum. Náist ekki í foreldra/forráðamenn sér hjúkrunarfræðingur eða starfsfólk skólans um að koma barninu í réttar hendur.