Starfsfólk skólans

Verksvið starfsmanna

Alls eru 16 starfsheiti innan skólans. Hér á eftir verður nánar greint frá hlutverki umsjónarkennara, stuðningsfulltrúa, þroskaþjálfa og skólaliða.

Hlutverk umsjónarkennara
Í lögum um grunnskóla (nr.66/1995) er fjallað um hlutverk umsjónarkennara. Þar segir: “Umsjónarkennari fylgist náið með námi nemenda sinna og þroska, leiðbeinir þeim í námi og starfi, aðstoðar og ráðleggur þeim um persónuleg mál og stuðlar að því að efla samstarf skóla og heimila.”


Hlutverk stuðningsfulltrúa.
Stuðningsfulltrúi er kennara til aðstoðar við að sinna einum eða fleiri nemendum sem þurfa sérstaka aðstoð. Starfið miðar fyrst og fremst að því að auka færni og sjálfstæði þessara nemenda, félagslega, námslega og í daglegum athöfnum. Starfið tekur mið af þar til gerðri áætlun sem hefur það að markmiði að draga smám saman úr þörf nemanda/nemenda á stuðningi í þeim tilvikum þar sem það er hægt. Stuðningsfulltrúi lýtur faglegri stjórn deildarstjóra sérkennslu og umsjónarkennara.


Hlutverk þroskaþjálfa
Þroskaþjálfar bera ábyrgð á þroskaþjálfun og þjálfun nemenda með fötlun og barna með sérþarfir. Þroskaþjálfi skipuleggur og stýrir atferlisþjálfun og gerir færni-, þroska-, stöðu- og endurmat. Þroskaþjálfi gerir einstaklingsnámskrá í samráði við umsjónarkennara, sérkennara, foreldra og aðra, eftir því sem við á. Þroskaþjálfi annast upplýsingagjöf og upplýsingaöflun vegna sérþarfa nemenda sinna og miðlar sérþekkingu til kennara, annarra starfsmanna skólans og foreldra.


Hlutverk skólaliða
Skólaliðar sinna ýmsum verkefnum innan skólans. Sem dæmi um verkefni skólaliða má nefna ræstingu, útigæslu og gangavörslu. Einnig sinna þeir baðvörslu í íþróttasal og sundlaug og vinna sem starfsmenn í mötuneyti. 

Prenta | Netfang