Skólareglur og skólabragur

Viðurlög við brotum á skólareglum

Til 1. stigs agabrota telst:

 • þras/ögrun/rifrildi
 • truflar athafnir/leiki/vinnu annarra
 • gengur illa um
 • pot/hrindingar/árekstrar

Umsjónarkennari/kennari/starfsmaður, sem verður vitni að atburðinum, tekur nemandann til hliðar og ræðir alvarlega við hann. Nemanda skal gefinn kostur á að tjá sig um málið. Nemanda er leiðbeint og lögð áhersla á að hann átti sig á ábyrgð sinni, skilji í hverju brot hans fólst og viti hvernig hann á að bregðast við næst. Lögð er áhersla á að kennari/starfsmaður hvetji nemanda til að bæta sig og hrósi honum fyrir samvinnu.

 

Til 2. stigs agabrota telst:

 • særandi/niðrandi orðbragð/hæðni
 • óhlýðni/neitar að fylgja fyrirmælum
 • ósannsögli/svik/svindl
 • áreiti/hrekkir/stríðni
 • annað (s.s nemandi gengur út úr tíma)

Sá umsjónarkennari eða kennari (kenni hann nemandanum), sem verður vitni að agabrotinu hefur samband við foreldra og óskar eftir samstarfi við að aðstoða og styðja nemandann. Nemanda skal gefinn kostur á að tjá sig um málið. Atburðurinn er skráður af kennara sem verður vitni að agabrotinu í dagbók nemandans í Mentor og tilkynnir hann umsjónarkennara um málið.

Verði starfsmenn/kennarar (sem ekki kenna nemandanum) vitni að 2. stigs agabroti koma þeir upplýsingum um það til umsjónarkennara nemandans. Umsjónarkennari tekur við málinu, hefur samband við foreldra og óskar eftir samstarfi við að aðstoða og styðja nemandann. Nemanda skal gefinn kostur á að tjá sig um málið. Atburðurinn er skráður af umsjónarkennara í dagbók nemandans í Mentor.

Yfirgefi nemandi kennslustund án leyfis hringir kennari heim til nemandans, gerir grein fyrir brotthvarfinu og óskar eftir samstarfi við heimilið um að veita nemandanum tiltal.

 

 

3. stigs agabrot

Til 3. stigs agabrota telst:

 • ofbeldi/slagsmál/ógnandi hegðun
 • skemmdarverk
 • þjófnaður
 • annað (s.s vopn, eldfæri, reykingar og fíkniefni)

Nemandi er tekinn úr aðstæðum. Umsjónarkennari eða skólastjórnandi hefur strax samband við heimili geranda og óskar eftir að nemandinn verði sóttur eða heimilið taki á móti nemandanum. Einnig hefur skólastjórnandi samband við heimili þolanda. Ólögleg hegðun er tilkynnt lögreglu.

Atburðurinn er skráður í dagbók nemandans í Mentor. Meginreglan er sú að boðað er til fundar með foreldrum, nemanda, umsjónarkennara og skólastjórnanda áður en nemandinn fær að koma aftur í skólann.

Viðbrögð við alvarlegum brotum á skólareglum

Gerist nemandi sekur um alvarleg eða endurtekin brot á skólareglum er heimilt að vísa honum tímabundið úr skóla meðan leitað er lausna á máli hans. Hið sama á við ef nemandinn virðir fyrirmæli æðstu stjórnenda skólans, þ.e. skólastjóra og aðstoðarskólastjóra, að vettugi. Við vinnslu slíkra mála er farið að verklagsreglum Reykjavíkurborgar sem fjalla um viðbrögð við hegðunar- og samskiptavanda, skólasóknar- og ástundunarvanda og viðbrögð við lögbrotum og alvarlegum brotum nemenda á skólareglum. „Ef allt um þrýtur og brot nemenda eru mjög alvarleg s.s. ef hann veldur öðrum skaða eða eignatjóni, er heimilt að víkja honum ótímabundið úr skóla. Það skal þó ekki gert fyrr en allar aðrar leiðir hafa verið reyndar“ (Reglugerð um ábyrgð og skyldur aðila skólasamfélagsins í grunnskólum 1040/2011).

Starfsmönnum skóla er óheimilt að neyta aflsmunar nema nauðsyn krefji til að stöðva nemandann og koma í veg fyrir að hann valdi sjálfum sér eða öðrum skaða eða eignatjóni. Í tilvikum sem þessum skal ávallt greina forráðamönnum tafarlaust frá málavöxtum.

 

Til athugunar:
Í 11.gr reglugerðar um ábyrgð og skyldur aðila skólasamfélagsins í grunnskólum segir: "Hegði nemandi sér í ósamræmi við skólareglur utan skólatíma telst það almennt ekki brot á skólareglum, nema þegar t.d. er um að ræða einelti eða annað ofbeldi sem á sér stað á leið nemanda til og frá skóla. Fer þá um viðbrögð í samræmi við skólareglur".

Prenta | Netfang