Skólareglur og skólabragur

Olweus - stefna gegn einelti. Meðferð eineltismála

Vellíðan er eitt af einkunnarorðum Austurbæjarskóla. Vellíðan felst í góðum skólabrag þar sem gleði, traust, vinsemd, virðing og jafnrétti endurspeglast í daglegum samskiptum. Austurbæjarskóli er heilsueflandi grunnskóli þar sem lögð er áhersla á andlegt, félagslegt og líkamlegt heilbrigði í skapandi og hlýlegu námsumhverfi. Markvisst er unnið að því að efla sjálfsmynd nemenda og seiglu. Lögð er áhersla á jákvæð samskipti og unnið er gegn fordómum og einelti.

Skólinn vinnur í anda Olweusáætlunarinnar gegn einelti. Í henni felst virk samvinna heimilis og skóla í forvörnum og viðbrögðum gegn einelti ef það kemur upp. Ef grunur vaknar um einelti er mikilvægt að nemendur og/eða foreldrar tilkynni strax um eineltið í gegnum hnapp á heimasíðu skólans. Eineltisteymi tekur við málinu og hefur vinnslu þess. 

Meðferð eineltismála í Austurbæjarskóla

Þegar tilkynnt er um einelti er unnið samkvæmt ákveðnu verkferli. 

Umsjónarkennara er gerð grein fyrir málinu.  Umsjónarkennari kannar málið. Hann skal leita eftir upplýsingum sem víðast svo sem hjá starfsfólki, foreldrum og nemendum. - Ef umsjónarkennari, eftir slíka athugun, metur það svo, að um líklegt einelti sé að ræða skal foreldrum þeirra nemenda sem hlut eiga að máli gerð grein fyrir því. Gildir það jafnt um gerendur og þolendur. Eineltisteymi er umsjónarkennara til stuðnings í þessu ferli ef þess er óskað. - Innan skólans fer þá af stað markviss vinna:

1. Alvarleg viðtöl við geranda/gerendur
Alvarleg viðtöl við geranda/gerendur
með aðstoð eineltisteymis þar sem þeim er gerð skýr grein fyrir alvöru málsins, viðbrögðum skólans og þeim afleiðingum sem áframhaldandi háttarlag mun hafa. Foreldrar skulu boðaðir í fyrsta viðtal og látnir vita í hvert sinn sem boðað er til viðtals eftir það. Einnig skulu þeir boðaðir í lokaviðtal.


2.
Þolanda tryggt öryggi
Þolanda skal tryggt öryggi eftir því sem kostur er og í samvinnu við foreldra skapað öryggisnet sem hindrar að eineltið haldi áfram. Það felst í því að starfsfólk og kennarar sem að bekknum koma fylgjast með samskiptum gerenda og þolanda eins og kostur er. Einnig býðst þolanda að fara í regluleg viðtöl hjá námsráðgjafa. Auk þess eru foreldrar kallaðir til samstarfs um að fylgjast með líðan og láta strax vita ef eitthvað ber út af. Ákveðinn aðili í eineltisteymi skal vera ábyrgur fyrir því að fylgst sé með þolanda með því að kalla reglulega eftir upplýsingum.


3. Gerandi heldur áfram í reglubundum viðtölum

Gerandi heldur áfram í reglubundum viðtölum við fulltrúa úr eineltisteymi. Farið er yfir samskiptin við þolanda t.d. vikulega í nokkur skipti, síðan mánaðarlega uns eineltið telst upprætt. Ætíð skal aflað upplýsinga frá þolanda stuttu fyrir viðtal, þannig að geranda sé ljóst að fylgst sé með honum/henni.


4. Máli lokað
.
Þegar séð þykir að einelti hafi verið stöðvað eftir mislangan tíma eftir atvikum skulu báðir aðilar boðaðir í einstaklingsviðtöl ásamt foreldrum. Þar er málinu formlega lokað með skriflegu samþykki foreldra. Þetta samþykki skal fært til bókar í dagbók nemenda á Mentor og birt foreldrum, umsjónarkennara og skólastjórnendum


Hafa skal í huga við lausn eineltismála í Olweusarskóla:
Viðbrögð við einelti af hvaða toga sem er, misalvarlegu eftir atvikum, ættu alltaf: - að vera skýr, einlæg og nákvæm, laus við niðurlægingu, kaldhæðni, árásir, hótanir eða þvinganir. - að birtast tafarlaust og vera fylgt eftir til lengri tíma, t.d. með endurteknum viðtölum.  - að fela í sér skráningu á atburðum, þátttakendum og viðbrögðum - að fela í sér samvinnu við foreldra strax á fyrstu stigum íhlutunar; upplýsingar um aðgerðir berist þeim jafnóðum.

Ætíð skal unnið samkvæmt Olweuskerfinu við meðferð eineltismála.

 

Prenta | Netfang