Skólareglur og skólabragur

Skólareglur

Skólareglur Austurbæjarskóla eru byggðar á reglugerð um ábyrgð og skyldur aðila skólasamfélagsins í grunnskólum nr. 1040/2011 en í 9. grein segir: „Í skólareglum skal m.a. kveðið á um almenna umgengni, samskipti, háttsemi, stundvísi, ástundun náms, hollustu og heilbrigðar lífsvenjur, ábyrgð, réttindi og skyldur. Í reglunum skal koma fram hvernig skólinn hyggst bregðast við brotum á þeim“. Samskipti í Austurbæjarskóla grundvallast á gagnkvæmri virðingu, jákvæðni, kurteisi og tillitssemi.
 

1. Samskipti og háttsemi

Nemendur skulu ávallt koma fram af prúðmennsku og háttvísi í skólanum og þar sem þeir eru á vegum skólans. Nemendum ber að fara að fyrirmælum skólastjórnenda, kennara og annarra starfsmanna skólans. Hegðun sem veldur truflun og kemur í veg fyrir að hver og einn nemandi geti nýtt sér kennslustundir til fulls er óleyfileg. Ofbeldi í hvaða mynd sem er, er stranglega bannað. Nemendur fari úr yfirhöfnum í kennslustund, hengi þær á snaga, í skáp eða á stólbak. Skófatnaði er raðað framan við kennslustofur.

2. Stundvísi og ástundun náms

Nemendur skulu mæta stundvíslega og með viðeigandi námsgögn. Tilkynna þarf veikindi og önnur forföll nemenda á skrifstofu skólans, eða í gegnum Mentor eins fljótt og verða má. Mikilvægt er að foreldrar tilkynni forföll vegna veikinda daglega. Ef forföll eru ekki tilkynnt samdægurs af forráðamanni nemanda er litið svo á að um óheimila fjarvist sé að ræða. Umsjónarkennari getur veitt nemanda leyfi í einn dag en lengri leyfi þarf að sækja um á þar til gerðum eyðublöðum sem nálgast má á skrifstofu.

3. Frímínútur

Á skólalóð skulu nemendur sýna aðgæslu og tillitssemi. Nemendur í 1. – 7. bekk eru úti í frímínútum og er þeim óheimilt að fara út af skólalóð. Notkun hjóla, hlaupahjóla, hjólabretta, línu- og/eða hjólaskauta og hjólaskóa er bönnuð á skólalóðinni og í skólanum.

4. Hollusta og heilbrigðar lífsvenjur

Skólinn er heilsueflandi grunnskóli og leggur áherslu á að nemendur neyti hollrar og næringarríkrar fæðu. Neysla gosdrykkja, orkudrykkja og sælgætis er óheimil nema við sérstök tilefni. Reykingar, rafrettur og notkun áfengis, tóbaks og fíkniefna er stranglega bönnuð í skólanum, á skólalóð, í nágrenni skólans og alls staðar þar sem nemendur eru á vegum skólans.

5. Notkun myndavéla, farsíma og hvers kyns snjalltækja

Notkun síma, myndavéla og hvers kyns snjalltækja er bönnuð í kennslustundum á bókasafni í matsal og í búningsherbergjum íþróttasalar og sundlaugar. Mynd- og hljóðupptökur eru óheimilar í skólahúsnæði og á skólalóð Austurbæjarskóla nema með leyfi starfsmanna.

6. Umgengni og eignaspjöll

Nemendur skulu temja sér góða umgengni innandyra og á skólalóð og bera virðingu fyrir eignum skólans og annarra. Óheimilt er að koma með eldfæri og hvers kyns hluti sem geta valdið skaða s.s. hnífa, skrúfjárn o.s.frv. Valdi nemendur tjóni á eigum skólans eða annarra s.s. á tækjum, húsbúnaði og bókum geta forráðamenn átt von á að þurfa að bæta tjónið.

7. Verðmæti

Skólinn ber hvorki ábyrgð á persónulegum munum né fjármunum nemenda.

8. Nemendaferðir

Hafi málum nemanda verið vísað til skólastjóra vegna alvarlegra brota á skólareglum er það ákvörðun skólastjórnar í samráði við umsjónarkennara hvort viðkomandi nemandi fær heimild til þátttöku í ferð á vegum skólans. Fari nemandi af einhverri ástæðu ekki með í skipulagðar vettvangs- eða nemendaferðir er honum ætlað að mæta í skólann til annars skólastarfs. Gerist nemandi sekur um brot á skólareglum eða landslögum þar sem hann er á vegum skólans verður hann sendur heim á kostnað forráðamanna sinna.

 

 

 
 
 

Prenta | Netfang