Skip to content

Austurbæjarskóli tók til starfa haustið 1930. Áður hafði skólinn við Tjörnina, síðar nefndur Miðbæjarskólinn, verið aðalskóli bæjarins. Áratugurinn 1920 til 1930 fór í undirbúning og byggingu skólans sem reis í austanverðu Skólavörðuholti og var í fyrstu kallaður Nýi barnaskólinn. Sigurður Guðmundsson, húsameistari gerði teikningar og sá um bygginguna. Austurbæjarskóli er fyrsta húsið í Reykjavík sem hitað er upp með hitaveituvatni. Ásmundur Sveinsson, myndhöggvari gerði lágmyndir yfir báðum aðaldyrum skólans og einnig yfir dyrum á austurgöflum. Árið sem skólinn tók til starfa var ákveðið að færa skólaskylduna niður um 2 ár, börnin hæfu skólagönguna 8 ára gömul. Fyrsti skólastjórinn var Sigurður Ó. Thorlacius og 32 kennarar störfuðu við skólann. Í skólanum voru 30 almennar kennslustofur. Auk þeirra voru margar sérgreinastofur: teiknistofa, kennslueldhús, smíðastofa, sundlaug, fimleikasalur, handavinnustofa stúlkna, samkomusalur fyrir skemmtanir (jólaskemmtanir), kvikmyndasýningar og söngsalur. Einnig sérbúnar náttúrufræði- og landafræðistofur velbúnar kennslugögnum. Þetta kallaði á nýja og frjálslegri kennsluhætti. Frá upphafi voru þéringar felldar niður og ákveðið var að börnin gengu frjáls inn í skólann en skipuðu sér ekki í raðir úti í porti. Skólastjórinn sem var hámenntaður og áhugasamur brautryðjandi í fræðslumálum safnaði að sér velmenntuðum kennurum. Vinnubókagerð og samvinna nemenda var tekin upp. Mikill skortur var á námsbókum og öðru lesefni handa börnum. Margir af kennurum Austurbæjarskóla voru mikilvirkir rithöfundar sem skrifuðu fjölþætt efni handa börnum. Má þar nefna höfunda eins og Jóhannes úr Kötlum, Gunnar M. Magnúss, Ragnheiði Jónsdóttur, Vilborgu Dagbjartsdóttur og Stefán Jónsson. Nokkru eftir 1950 varð nemendafjöldinn mestur, 1839. Nemendur skiptust í allt að 11 deildir í hverjum árgangi. Nú eru 479 nemendur á aldrinum 6-15 ára í Austurbæjarskóla í 21 bekkjardeild. Starfsmenn eru 79. Skólinn hefur verið einsetinn frá haustinu 1996. Skólahúsnæðið ásamt lóð hafa á síðustu árum verið í gagngerri endurnýjun. Vilhjálmur Hjálmarsson, arkitekt hefur stjórnað verkinu og endurhannað þessa friðuðu byggingu og aðlagað hana að breyttum kröfum með fullri virðingu fyrir sögulegu gildi hússins. Í janúar árið 2000 var tekin í notkun 320 m2 viðbygging sunnan við skólann og er þá heildarflatarmál skólans 6.717 m2.

JÓLASKEMMTANIR

Jólaskemmtanir í Austurbæjarskólanum eiga sér langa hefð. Lögð er áhersla á að allir nemendur taki virkan þátt í sýningum í bíósal. T.d. stíga allir nemendur 4. bekkja á svið á skemmtun þess árgangs en ekki einungis einhverjir útvaldir leiklistarnemar eða kórsöngvarar. Í annan stað er mikið flutt af efni eftir gamla kennara og ekki í kot vísað þar sem eru menn á borð við Stefán Jónsson og Jóhannes úr Kötlum.Skemmtanirnar eru ríkar í minningum gamalla nemenda. Í bókinni Sól í Norðurmýri, æskuminningum Megasar, skráðum af Þórunni Valdimarsdóttur segir svo: "Jólaskemmtanir Austurbæjarskóla eru heimsfrægar með leikritum, söng og eplaáti. Þegar píslin var minni var hann settur í gul prinsaföt úr gervisilki og látinn leika prins á jólaskemmtun á bíósviðinu. Eftir skemmtiatriðin þar fara allir upp undir þak í dans- og eplaátssalinn. Skrípið verður svo hrifinn af sjálfum sér, stemmningunni, slaufum, lakkskóm og siffonkjólum að hann verður samstundis yfir sig skotinn í nokkrum stelpum á jólaballinu." (Þórunn Valdimarsdóttir, 1990, s. 151) Síðan 1986 hafa sýningarnar verið teknar upp á myndband og eru þær upptökur mjög vinsælar þegar gamlir nemendur koma saman og rifja upp árin í Austurbæjarskólanum. Mörg undanfarin ár hefur foreldrum og aðstandendum barnanna verið boðið á sýningarnar. Að loknum skemmtiatriðum fara allir niður í íþróttasalinn og dansa kringum jólatréð. Þar eru engin áhorfendastæði og verða allir sem þangað koma að dansa með. Eins og sést af þessu þá leggjum við mikið upp úr jólaskemmtunum og erum fastheldin á gamlar hefðir og veitir ekki af í rótleysi samtímans.

 

STEFÁNSDAGUR

Stefán Jónsson (1905-1966) var kennari í Austurbæjarskóla frá árinu 1933 til dánardægurs. Árið 1996 eða þegar 30 ár voru liðin frá láti hans var ákveðið að efna til sérstakrar dagskrár til minningar um Stefán. Þar sem fæðingardagur Stefáns er 22. desember, þegar jólafrí er var dánardagurinn valinn til að minnast hans. Stefánsdagurinn hefur síðan verið haldinn hátíðlegur ár hvert, í maí. Í fyrsta sinn sem haldið var upp á daginn var dagskrá flutt í portinu fyrir framan skólann. Nemendur lásu úr verkum Stefáns og skólakórinn söng nokkur ljóða hans. Sýning var sett upp á skólasafninu og haldin var skemmtun í samkomusalnum þar sem fyrrverandi nemendur Stefáns Jónssonar afhentu skólanum bekkjarmynd og kennarar skólans gáfu mynd af Stefáni. Stefán Jónsson unni íslenskri tungu. Hann kaus að starfa með börnum og skrifa bækur handa þeim. Ljóð hans og sögur eru dýrmætur fjársjóður.

 

HOLLVINAFÉLAG AUSTURBÆJARSKÓLA

Umsvif Hollvinafélagsins hafa frá stofnun beinst að sögu skólans og varðveislu merkra muna í eigu hans. Formlegur stofnfundur var haldinn þann 6. febrúar 2010.  Tilgangur félagsins er að starfsrækja skólamunastofu í Austurbæjarskóla og skrásetja sögu skólans. Einnig að styðja og styrkja menningarstarfsemi innan Austurbæjarskóla og skylda starfsemi innan skólahverfisins.  Hvatinn að stofnun félagsins var sá að skólinn státar af langri og merkri sögu og í áranna rás hafa safnast margir merkilegir munir sem tengjast sögu skólans.  Það þótti því vel við hæfi að stofna formlegan hóp hollvina, sér í lagi í ljósi þess að haustið 2010 varð skólinn 80 ára.

Í undirbúningi er að skrásetja skjalasafn og verkefni, bæði nemenda og kennara, eftir skráningarkerfi sem Reykjavíkurborg leggur til. Í herbergi undir skrifstofu aðstoðarskólastjóra (áður yfirkennara) hefur verið komið fyrir gögnum er varða sögu skólans.
Öllum þeim sem styðja markmið félagsins og vilja veg og virðingu Austurbæjarskólans sem mesta er frjálst að ganga í félagið, s.s. starfsmönnum, fyrrum starfsmönnum, nemendum, foreldrum og öðrum velunnurum skólans. Árgjald til félagsins er kr. 2.000. Þeir sem greiða árgjald hvers árs eru taldir fullgildir félagar og einungis þeir hafa atkvæðisrétt á aðalfundi félagsins.