Skip to content
vorhatid2019

Austurbæjarskóli

Austurbæjarskóli er heildstæður grunnskóli og stendur við Barónsstíg í Reykjavík. Nemendur eru u.þ.b. 420 og eru að jafnaði tvær bekkjardeildir í hverjum árgangi.

Austurbæjarskóli leitast við að sníða skólastarfið í samræmi við eðli og þroska hvers nemanda.

Einkunnarorð skólans eru vöxtur, vilji, víðsýni og vellíðan.

 

skolaheimsoknleikskolabarna

Stefna skólans

Stefna Austurbæjarskóla tekur mið af lögum, reglugerðum, alþjóðasamþykktum, stefnu Reykjavíkurborgar í fræðslumálum og félagslegu umhverfi skólans. Öllum skal tryggt jafnrétti til náms án tillits til kyns, þjóðernis, stéttar, stöðu og trúarbragða. 

Framtíðarsýn skólans er: Framsækinn skóli fyrir alla. Í því felst að lögð er áhersla á hugarfar vaxtar, víðsýni, vellíðan og vilja til að gera stöðugt betur. Markmið skólans er að auka þekkingu og leikni nemenda og gera þá að farsælum og sjálfstæðum einstaklingum. Einstaklingum sem hafa trú á eigin getu og takast óhræddir á við nýja hluti í viðleitni sinni við að finna hæfileikum sínum og hæfni farveg. Austurbæjarskóli leggur sig fram um að vera í fararbroddi hvað varðar fjölbreytta náms- og kennsluhætti þar sem allir hafa jafnan aðgang að lærdómsferlinu. Lögð er áhersla á að varða leið nemenda í námi, vinna með reynsluheim, hvetja til samvinnu og auka metnað og árangur.

Austurbæjarskóli er vinnustaður fyrir hugmyndaríkt og skapandi fagfólk sem sýnir metnað í starfi, ber hag nemenda fyrir brjósti og leggur sig fram um að sinna þörfum barna og unglinga.

Einkunnarorð skólans eru: vöxtur – víðsýni – vellíðan – vilji. Þessar áherslur endurspeglast í öllum samskiptum og starfi skólasamfélagsins. Til að svo megi verða hefur starfsfólk Austurbæjarskóla, nemendur, foreldrar og starfsfólk frístundar komið sér saman um eftirfarandi stefnumörkun:

Vöxtur: 
Fjölbreytni nemendahópsins í Austurbæjarskóla felur í sér mikinn styrk fyrir skólasamfélagið og er uppeldi, framfarir, menntun og líðan nemandans sett í öndvegi. Í skólanum er stuðlað að hugarfari vaxtar þar sem lögð er rækt við hæfileika og að efla færni. Áhersla er á framfarir og leiðsagnarmat, með markvissri uppbyggjandi endurgjöf. Nemendur eiga að geta haft áhrif á og tjáð sig um nám sitt, vita hvar þeir eru staddir, hvert þeir eiga að stefna og hvað er góður árangur. Námið er einstaklingsmiðað en byggir á samvinnu, lausnaleit, þverfaglegri vinnu og fjölbreyttum náms- og kennsluháttum.

Víðsýni:
Víðsýni er einkunnarorð Austurbæjarskóla enda eru í skólanum ólíkir einstaklingar sem búa yfir margvíslegri þekkingu og reynslu. Virðing er borin fyrir fjölbreytileikanum, nemendur vinna að verkefnum sem reyna á samstarf, gagnrýna hugsun, stuðla að fordómaleysi, auka sjálfsþekkingu og búa þá undir virka þátttöku í  lýðræðissamfélagi.

Vellíðan:
Vellíðan felst í góðum skólabrag þar sem gleði, traust, vinsemd, virðing og jafnrétti endurspeglast í daglegum samskiptum. Austurbæjarskóli er heilsueflandi grunnskóli þar sem lögð er áhersla á andlegt, félagslegt og líkamlegt heilbrigði í skapandi og hlýlegu námsumhverfi. Markvisst er unnið að því að efla sjálfsmynd nemenda og seiglu. Lögð er áhersla á jákvæð samskipti og unnið er gegn fordómum og einelti.
Í skólanum ríkir samhugur um gildi og sýn sem stuðlar að sterkri skólamenningu þar sem allir, jafnt nemendur, starfsfólk, foreldrar og frístundafólk bera hag skólans fyrir brjósti og eru á leið í sömu átt.

Vilji:
Lögð er áhersla á að virkja vilja alls skólasamfélagsins til að gera betur, sækja fram og þróa skólastarfið á skapandi hátt með það að markmiði að styðja við nám nemenda. Er það meðal annars gert með öflugu list- og verkgreinanámi, samstarfsverkefnum við frístund, foreldra og aðra aðila nærsamfélagsins, með umhverfisverkefnum, vettvangsnámi, starfsnámi og samfélagsverkefnum.

Austurbæjarskóli hefur um margt nokkra sérstöðu. Skólinn er í sögufrægu húsi í miðbæ Reykjavíkur og frá upphafi til vorra tíma hefur skólastarfið verið metnaðarfullt og í takt við þarfir samtímans. Styrkur skólans felst fyrst og fremst í fjölbreyttum nemendum, metnaðarfullu starfsfólki, öflugu foreldrasamfélagi og kraftmiklu frístundastarfi.

Stjórnendur skólans

Skólastjóri er Kristín Jóhannesdóttir.
Netfang: kristin.johannesdottir@rvkskolar.is

Aðstoðarskólastjóri er Sigríður Valdimarsdóttir.
Netfang: sigridur.valdimarsdottir@rvkskolar.is