Skólanámskrá
Saga skólans og starfsemi frá upphafi
Austurbæjarskóli tók til starfa haustið 1930. Áður hafði skólinn við Tjörnina, síðar nefndur Miðbæjarskólinn, verið aðalskóli bæjarins. Áratugurinn 1920 til 1930 fór í undirbúning og byggingu skólans sem reis í austanverðu Skólavörðuholti og var í fyrstu kallaður Nýi barnaskólinn. Sigurður Guðmundsson, húsameistari gerði teikningar og sá um bygginguna. Austurbæjarskóli er fyrsta húsið í Reykjavík sem hitað er upp með hitaveituvatni. Ásmundur Sveinsson, myndhöggvari gerði lágmyndir yfir báðum aðaldyrum skólans og einnig yfir dyrum á austurgöflum. Árið sem skólinn tók til starfa var ákveðið að færa skólaskylduna niður um 2 ár, börnin hæfu skólagönguna 8 ára gömul. Fyrsti skólastjórinn var Sigurður Ó. Thorlacius og 32 kennarar störfuðu við skólann. Í skólanum voru 30 almennar kennslustofur. Auk þeirra voru margar sérgreinastofur: teiknistofa, kennslueldhús, smíðastofa, sundlaug, fimleikasalur, handavinnustofa stúlkna, samkomusalur fyrir skemmtanir (jólaskemmtanir), kvikmyndasýningar og söngsalur. Einnig sér útbúnar náttúrufræði- og landafræðistofur vel búnar kennslugögnum. Þetta kallaði á nýja og frjálslegri kennsluhætti. Frá upphafi voru þéringar felldar niður og ákveðið var að börnin gengu frjáls inn í skólann en skipuðu sér ekki í raðir úti í porti. Skólastjórinn sem var hámenntaður og áhugasamur brautryðjandi í fræðslumálum safnaði að sér vel menntuðum kennurum. Vinnubókagerð og samvinna nemenda var tekin upp. Mikill skortur var á námsbókum og öðru lesefni handa börnum. Margir af kennurum Austurbæjarskóla voru mikilvirkir rithöfundar sem skrifuðu fjölþætt efni handa börnum. Má þar nefna höfunda eins og Jóhannes úr Kötlum, Gunnar M. Magnúss, Ragnheiði Jónsdóttur, Vilborgu Dagbjartsdóttur og Stefán Jónsson. Nokkru eftir 1950 varð nemendafjöldinn mestur, 1839. Nemendur skiptust í allt að 11 deildir í hverjum árgangi. Nú eru rúmlega 400 nemendur á aldrinum 6-15 ára í Austurbæjarskóla í 21 bekkjardeild. Starfsmenn eru 79. Skólinn hefur verið einsetinn frá haustinu 1996. Skólahúsnæðið ásamt lóð hafa á síðustu árum verið í gagngerri endurnýjun. Vilhjálmur Hjálmarsson, arkitekt hefur stjórnað verkinu og endurhannað þessa friðuðu byggingu og aðlagað hana að breyttum kröfum með fullri virðingu fyrir sögulegu gildi hússins. Í janúar árið 2000 var tekin í notkun 320 m2 viðbygging sunnan við skólann og er þá heildarflatarmál skólans 6.717 m2.
Útfærsla skólans á grunnþáttum í menntun
Útfærslu skólans á grunnþáttum í menntun.
Íslenska, stærðfræði, samfélags-og náttúrugreinar í 1.-4. bekk, smellið hér.
Útfærsla skólans á grunnþáttum í menntun.
List-og verkgreinar og skólaíþróttir 1.-4. bekkur, smellið hér.
Útfærsla skólans á grunnþáttum í menntun.
Upplýsinga-og tæknimennt 1.-4. bekkur, smellið hér.
Útfærsla skólans á grunnþáttum í menntun.
Erlend tungumál, stærðfræði, upplýsinga-og tæknimennt 5.-7. bekkur, smellið hér.
Útfærsla skólans á grunnþáttum í menntun.
Íslenska, samfélagsfræði, náttúrufræði 5.-7. bekkur, smellið hér.
Útfærsla skólans á grunnþáttum menntunar.
List-og verkgreinar og skólaíþróttir 5.-7. bekkur, smellið hér.
Útfærsla skólans á grunnþáttum í menntun.
Íslenska og erlend tungumál í 8.-10. bekk, smellið hér.
Útfærsla skólans á grunnþáttum menntunar.
List-og verkgreinar, skólaíþróttir, upplýsinga-og tæknimennt 8.-10. bekkur, smellið hér.
Útfærsla skólans á grunnþáttum menntunar.
Náttúrugreinar, samfélagsgreinar, stærðfræði 8.-10. bekkur, smellið hér.
Skólanámskrá sem heild má sækja hér. Áætlun um mat og umbætur.
Mat á skólastarfi er ein forsenda þess að skólar geti mætt þeim mörgu og margvíslegu breytingum sem ytra umhverfi kallar á. Sjálfsmat skóla felst í því að afla með skipulögðum hætti upplýsinga um ákveðna þætti skólastarfsins. Gæði starfsins eru síðan metin með því að bera niðurstöður saman við markmið eða viðmið. Á grundvelli mats eru teknar ákvarðanir um breytingar til að bæta árangur, sett markmið og framkvæmdaráætlun gerð til þess. Sjálfsmatsteymi skólans hefur umsjón með vinnu í tengslum við sjálfsmat og gerð sjálfsmatsskýrslu og umbótaáætlunar. Sjálfsmatið felur í sér meðal annars umbótaráætlun og áætlun um innra mat.
- Vera stjórnendum til halds og traust við innra mat skólans og koma með tillögur til stjórnendahópsins.
- Sjá til þess að matsáætlun sé fylgt og uppfæra hana.
- Fara yfir gögn, s.s. kannanir og skimanir og koma með tillögur að umbótum.
- Yfirfara umbótaáætlun að vori og móta tillögur þar sem fram kemur hvaða umbóta- og þróunarverkefnum er lokið, hvaða verkefni ættu halda áfram og hvaða ný verkefni ætti að taka upp.
Samstarf heimila og skóla
Samkvæmt barnalögum teljast foreldrar þeir sem fara með forsjá barns. Foreldrar bera ábyrgð á uppeldi barna sinna. Á þeim hvílir sú skylda að börnin sæki skóla og að þau séu eins móttækileg fyrir þeirri menntun sem skólinn býður og framast er unnt. Skólinn aðstoðar foreldra í uppeldishlutverkinu og býður fram menntunartækifæri. Menntun og velferð nemenda er sameiginlegt verkefni heimila og skóla og samstarfið þarf að byggjast á gagnkvæmri virðingu, trausti, og upplýsingamiðlun beggja aðila, sameiginlegum ákvörðunum og samábyrgð. Mesta áherslu ber að leggja á samstarf heimila og skóla um hvern einstakling, nám hans og velferð og að heimili og skóli séu vettvangur menntunar.
Starfsfólk skóla, nemendur og foreldrar mynda skólasamfélagið í hverjum skóla. Fullorðna fólkið hefur mest áhrif á barnið og ber ábyrgð á velferð þess. Samstarf skóla og foreldra hefur áhrif á líðan barns og námsárangur og því er mikilvægt að foreldrasamstarf sé gott í skólanum.
Kennari getur átt ríkan þátt í að stuðla að aukinni hlutdeild foreldra. Með því að vinna að samstarfinu á markvissan og skipulagðan hátt gefst foreldrum tækifæri á að taka þátt í starfi barna sinna. Starfsáætlun foreldrafélagsins má finna hér.
Upplýsingamiðlun
Gagnkvæm og virk upplýsingagjöf stuðlar að trausti milli foreldra og starfsfólks skóla og hjálpar þeim að deila ábyrgð og taka ákvarðanir sem lúta að velferð nemenda. Með auknum kynnum foreldra af daglegu starfi í skólanum og skipulegri samvinnu um skólastarfið aukast líkur á virkri þátttöku foreldra í tengslum við ákvarðanir og ábyrgð. Aukin hlutdeild foreldra stuðlar að bættum námsárangri barna og bættri líðan þeirra. Foreldrar skulu upplýsa skólann sem best um hagi barnsins og almennan þroska og greina frá þeim þáttum sem geta haft áhrif á líðan þess og frammistöðu í skólanum.
Mikilvægt er að skólinn miðli með skýrum og aðgengilegum hætti upplýsinga til foreldra og heimila um skólastarfið s.s. skýrslur og áætlanir. Miðlun upplýsinga fer einkum fram með vikulegum upplýsingapóstum kennara til foreldra, í foreldraviðtölum, á sameiginlegum fundum með foreldrum, með upplýsingabréfum frá skólastjóra, í skólanámskrá, starfsáætlun og á vefsíðu skólans.
Á skóla- og frístundasviði Reykjavíkurborgar starfar ráðgjafi foreldra og skóla. Ráðgjafinn veitir foreldrum og forráðamönnum nemenda upplýsingar og leiðsögn um samstarf og samskipti við skóla og beitir sér fyrir lausn ágreiningsefna sem upp kunna að koma. Hann styður skóla í þróun samstarfs við foreldra og forráðamenn um nám nemenda og veitir skólaráðum og foreldrafélgögum stuðning í starfi.
Samstarf við önnur skólastig og nærsamfélag
Tilfærsluáætlun er skrifleg greinargerð um náms,-starfs, og félagslega stöðu nemenda sem stundað hafa nám eftir einstaklingsnámskrá í grunnskóla eða leikskóla. Markmiðið er að veita raunhæfar upplýsingar um nemandann milli skólastiga. Einnig er markmiðið að geta boðið nemandanum upp á nám við hæfi strax við upphaf skólagöngu. Í reglugerð um nemendur með sérþarfir í grunn-og framhaldsskólum eru ákvæði um slíkar tilfærsluáætlanir þar sem áhersla er á að taka heildstætt á stöðu til nemandans m.a. með það að markmiði að tryggja viðeigandi menntun í framhaldsskóla, stuðla að virkri þátttöku í samfélaginu og síðar í atvinnulífinu.
Áætlunin er unnin í samstarfi milli nemandans, forráðamanna, sérkennara og námsráðgjafa. Fyllt er út eyðublað með bakgrunnsupplýsingum um nemandann þar sem fram koma auk almennra upplýsinga ýmislegt um kunnáttu hans, leikni, áhugasvið, námsaðferðir sem henta honum best og hjálpartæki (ef það á við), vonir og væntingar hans til framtíðar, lestrarfærni svo eitthvað sé nefnt. Þá er greint frá þeim stuðningi sem nemandinn hefur notið í grunnskóla til þessa. Félagslegri færni og hvort nemandinn taki lyf. Loks ritar sérkennari eða námsráðgjafi stutta lýsingu á viðkomandi nemenda með tilliti til náms,-starfs- og félagslegra þátta.
Í vinnslu
Í vinnslu
Í vinnslu
Í vinnslu
Í vinnslu
Viðbragðs- og forvarnaráætlanir
Áfallaáætluninni er ætlað að veita upplýsingar um hvernig bregðast á við þegar válegir atburðir sem snerta nemendur og/eða starfsfólk skólans verða. Áfallaáætlun þessi skal nýtt sem gátlisti þegar skipuleggja þarf áfallahjálp. Athuga ber að taka þarf tillit til aðstæðna hverju sinni þegar viðbrögð eru ákveðin og mikilvægt er að starfsfólk skólans sé vel undir það búið að takast á við þá erfiðleika sem fylgja hinum ýmsu áföllum. Starfsfólk skal í viðbrögðum sínum taka tillit til hefðar og reynslu varðandi viðbrögð við áföllum.
Áfallaráð
Í áfallaráði sitja eftirtaldir aðilar: Skólastjóri, aðstoðarskólastjóri, námsráðgjafi, skólahjúkrunarfræðingur. Sálfræðingur á Þjónustumiðstöð Miðborgar og Hlíða og sóknarprestur Hallgrímskirkju er áfallaráði innan handar sem sérfræðingur í sorg og sorgarviðbrögðum. Skólastjóri eða staðgengill hans er ábyrgur fyrir því að kalla saman áfallaráð og stýra vinnu þess og skipulagi.
Hlutverk áfallaráðs
Í meginatriðum er hlutverk áfallaráðs að gera áætlun, svo bregðast megi fumlaust og ákveðið við, þegar áföll hafa orðið, s.s. bráð veikindi, alvarleg slys, dauðsföll eða aðrir atburðir sem líklegir eru til að kalla fram áfallastreitu og/eða sorgarviðbrögð. Lykilatriði er að í hverju tilviki sé mótuð skýr og afdráttarlaus áætlun um hver sinni hvaða hlutverki, í hvaða röð, og hvernig beri að bregðast við. Mikilvægt er að huga vandlega að óskum fjölskyldna þeirra sem hlut eiga að máli hverju sinni. Við skipulag áfallahjálpar og viðbragða, þarf að hafa í huga alla þá einstaklinga sem koma að starfsemi skólans, s.s. nemendur, aðstandendur, kennara, stjórnendur og annað starfsfólk.
Áföll sem þessi áætlun nær til eru:
Alvarleg slys (nemanda, aðstandenda þeirra eða starfsfólks).
Alvarleg veikindi (nemanda, aðstandenda þeirra eða starfsfólks).
Langvinnir sjúkdómar (nemanda, aðstandenda þeirra eða starfsfólks).
Andlát (nemanda, aðstandenda þeirra, starfsfólks eða maka starfsfólks).
Áfallaráð skal funda strax að hausti og athuga hvort breyting hafi orðið á aðstæðum nemenda eða starfsfólks vegna alvarlegra slysa, veikinda, dauðsfalla eða annarra áfalla. Áfallaráð skal ræða þau áföll sem upp hafa komið og taka ákvörðun um hvort eða til hvaða aðgerða skal gripið. Skrifstofa skólans skal halda sérstaklega utan um slíkar upplýsingar.
Viðbrögð við áföllum tengdum nemendum
Langvinnir sjúkdómar/alvarleg veikindi nemanda
Viðkomandi starfsfólki og nemendum er greint frá því ef nemandi þarf að vera langdvölum burt frá skóla vegna alvarlegra veikinda. Áfallaráð ákveður hvernig taka skuli á málinu og metur hve mikið vinna skal með viðkomandi nemendahópa. Aðilar úr áfallaráði ásamt umsjónarkennara ræða við og vinna með nemendum í einstaka nemendahópum sem tengjast málinu eftir aðstæðum. Athuga skal hvort heimsóknir til viðkomandi nemanda séu mögulegar og hvernig skuli staðið að þeim.
Þegar nemandi kemur aftur í skólann:
Undirbúa samnemendur undir það hvernig taka skuli á móti nemandanum þegar hann kemur aftur í skólann, en það getur auðveldað endurkomuna. Umsjónarkennari ásamt aðila úr áfallaráði ræða við nemandann áður en hann kemur í skólann.
Alvarleg slys sem verða í skólanum:
Verði alvarlegt slys á nemanda á skólatíma skal hafa samband við foreldra og lögreglu sem allra fyrst. Áfallaráð fundar og ákveður hvernig bregðast skuli við. Aðilar úr áfallaráði ásamt umsjónarkennara ræða við nemendur sem tengjast málinu. Starfsfólki og nemendum er greint frá slysinu. Skólastjórnendur gæta þess að enginn fari heim úr skólanum með rangar eða misvísandi upplýsingar um þætti málsins. Í því sambandi gæti þurft að senda bréf með helstu upplýsingum heim með nemendum. Sýni fjölmiðlar áhuga, er skólastjóri eða staðgengill hans, eini tengiliður skólans við þá. Allir aðrir skulu vísa á hann varðandi upplýsingar sem gefa á.
Alvarleg slys sem verða utan skólatíma:
Áfallaráð fundar og ákveður hvernig bregðast skuli við. Starfsfólki og nemendum er tilkynnt um slysið.
Þegar nemandi kemur aftur í skólann:
Undirbúa þarf samnemendur undir það hvernig taka skuli á móti nemandanum þegar hann kemur aftur í skólann, en það getur auðveldað endurkomuna. Umsjónarkennari ásamt aðila úr áfallaráði ræða við nemandann áður en hann kemur í skólann.
Andlát nemanda:
Skólastjóri sér um að afla staðfestra upplýsinga um atburðinn og hefur samband við heimilið. Áfallaráð kallað saman á fund þar sem fólk skiptir með sér verkum og ákveður fyrstu viðbrögð skólans.
Allar aðgerðir skólans eru bornar undir viðkomandi foreldra til samþykkis og þeir hafðir með í ráðum frá upphafi.
Umsjónarkennara viðkomandi nemanda tilkynnt um andlátið. Ef mögulegt er skal þess gætt að náin skyldmenni hins látna sem eru við nám eða störf við skólann fái fregnina sérstaklega, ekki yfir hópinn. Skólastjóri tilkynnir dauðsfallið við fyrsta hentuga tækifæri. Skrifstofustjóri skólans sér um að kalla allt starfsfólkið saman ef nauðsyn krefur. Skólastjóri ásamt aðila úr áfallaráði tilkynnir andlátið strax í viðkomandi nemendahópi og umsjónarkennari kemur með í stofuna. Stutt er við nemendur eins og hægt er með aðstoð hjúkurnarfræðings, námsráðgjafa og sálfræðings. Umsjónarkennarar með aðstoð fulltrúa úr áfallaráði tilkynna andlátið öðrum nemendum skólans.
Fáni dreginn í hálfa stöng við skólann þegar búið er að tilkynna nemendum andlátið.
Æskilegt er að umsjónarkennarar séu með sínum nemendahópi það sem eftir er skóladags. Nemendum gefið tækifæri til að ræða um atburðinn. Skólastjórnendur, námsráðgjafi og skólahjúkrunarfræðingur aðstoða ef þörf er á. Einnig er unnt að leita aðstoðar og/eða ráðgjafar hjá skólasálfræðingi og/eða sóknarpresti. Foreldrum nemenda tilkynnt um atburðinn og þeim boðið að sækja börn sín í lok skóladags. Bréf sent heim með öllum nemendum þar sem greint er frá því sem gerðist og sagt hvernig skólastarfið verði næstu daga. Mikilvægt að ritari skólans athugi hvaða nemendur voru ekki í skólanum þennan dag, svo hægt sé að senda skilaboð til þeirra. Í lok dagsins skal fundað í áfallaráði ásamt umsjónarkennara, þar sem farið er yfir stöðuna og áætlanir gerðar um áframhaldandi vinnu.
Næstu dagar hjá samnemendum viðkomandi nemanda:
Samnemendur undirbúa samúðarkveðju og/eða skrifa minnigargrein. Einnig geta nemendur teiknað myndir, skrifað bréf, ljóð eða sögur. Nemendum greint frá hvað gerist næstu daga þ.e. kistulagning og jarðarför með aðstoð sóknarprests ef þörf krefur. Foreldrar nemenda ákveða hver fyrir sig hvort börn þeirra verði viðstödd jarðarförina/minningarathöfnina. Nauðsynlegt er að foreldrar fari með börnunum sínum í jarðarförina/minningarathöfnina ef þeir ákveða að börn þeirra verði viðstödd. Sóknarprestur getur komið inn í nemendahópa og sagt frá því hvernig útförin fer fram ef þess er óskað. Kennslustundir næstu daga þarf að brjóta upp, ef spurningar vakna, eða ef fram koma viðbrögð sem sýna sorg, reiði, örvæntingu eða sektarkennd. Nauðsynlegt er að nemendum sé gefinn kostur á því að tjá tilfinningar sínar eða koma með reynslusögur.
Mikilvægt er að umsjónarkennarar fái þann stuðning og hjálp sem þeir þurfa á að halda. Skólastjórnendur, umsjónarkennarar og þeir starfsmenn sem tengst hafa barninu verða við jarðarförina sé það mögulegt. Fulltrúar skólans fara í heimsókn til aðstandenda viðkomandi nemanda með samúðarkveðju eftir andlát í samráði við aðstandendur.
Viðbrögð við áföllum tengdum aðstandendum nemenda
Alvarleg veikindi aðstandenda nemanda:
Skólastjórnendur eða umsjónarkennarar fá staðfestingu á veikindunum hjá foreldri nemanda. Upplýsingum komið til þeirra sem málið varða. Áfallaráð fundar um málið og ákveður í samráði við foreldra hvernig unnið skuli að málinu.
Alvarleg slys aðstandenda nemanda:
Skólastjórnendur eða umsjónarkennarar fá staðfestingu á slysinu hjá foreldri nemanda. Upplýsingum komið til þeirra sem málið varðar. Áfallaráð fundar um málið og ákveður í samráði við foreldra hvernig unnið skuli að málinu.
Andlát aðstandenda nemanda:
Skólastjóri aflar staðfestra upplýsinga um atburðinn. Áfallaráð kallað saman þar sem ákveðin eru fyrstu viðbrögð skólans. Umsjónarkennurum nemanda tilkynnt um andlátið.
Allar aðgerðir skólans eru bornar undir foreldra/aðstandanda og þeir hafðir með í ráðum frá upphafi.
Skólastjóri ásamt aðila úr áfallaráði koma upplýsingunum til samnemenda. Ef mögulegt er skal þess gætt að náin skyldmenni hins látna sem eru við nám eða störf við skólann fái fregnina sérstaklega, ekki yfir hópinn. Starfsfólki skólans er tilkynnt um atburðinn. Umsjónarkennarar stjórna áframhaldandi vinnu í nemendahópnum. Þeir geta hvenær sem er leitað aðstoðar aðila úr áfallaráði. Nemendur útbúa samúðarkveðju sem send er nemanda og fjölskyldu hans sem fyrst í samráði við foreldra/aðstandanda. Aðilar úr áfallaráði aðstoða umsjónarkennara við að undirbúa nemendur undir það hvernig þeir taka á móti nemandanum þegar hann
kemur aftur í skólann.
Áföll tengd starfsfólki skólans
Alvarleg veikindi starfsmanns:
Skólastjóri/áfallaráð ákveður í samráði við viðkomandi starfsmann hvernig tilkynna skuli nemendum veikindin.
Alvarleg slys á starfsmanni:
Skólastjóri/áfallaráð ákveður í samráði við viðkomandi starfsmann eða aðstandendur hvernig tilkynna skuli nemendum um slysið.
Andlát starfsmanns:
Skólastjóri leitar staðfestra upplýsinga um andlátið. Skólastjóri kallar áfallaráð saman og ákveðin eru fyrstu viðbrögð skólans. Skólastjóri upplýsir allt starfsfólk skólans um andlátið. Ritari skólans sér um tilkynningu til þeirra sem fjarri eru. Ef mögulegt er skal þess gætt að náin skyldmenni hins látna, sem eru við nám eða störf við skólann, fái fregnina sérstaklega. Ef umsjónarkennari fellur frá tilkynnir skólastjóri ásamt
aðila úr áfallaráði umsjónarnemendum um andlátið. Nemendum skólans er tilkynnt um andlátið. Að því loknu er fáni dreginn í hálfa stöng við skólann. Áfallaráð ákveður hvernig upplýsingum um andlátið skuli komið til foreldra nemenda. Aðilar úr áfallaráði veita umsjónarnemendum stuðning og vinna með þá næstu daga ef þörf krefur. Aðilar úr áfallaráði ræða við nemendur í öðrum hópum sé þess óskað. Skólastjóri ásamt aðila úr áfallaráði fer heim til nánustu aðstandenda starfsmanns. Skólinn sendir samúðarkveðju til nánustu aðstandenda.
Andlát maka/barns starfsmanns:
Skólastjóri leitar staðfestra upplýsinga um andlátið. Skólastjóri kallar áfallaráð saman og ákveðin eru fyrstu viðbrögð. Starfsfólk skólans er upplýst um andlátið. Ritari skólans sér um að tilkynna þeim sem fjarri eru um andlátið. Ef mögulegt er skal þess gætt að náin skyldmenni hins látna, sem eru við nám eða störf við skólann, fái fregnina sérstaklega. Ef maki umsjónarkennara fellur frá tilkynnir skólastjóri ásamt aðila úr áfallaráði nemendum andlátið. Áfallaráð tekur ákvörðun um hvernig upplýsingum skuli komið til foreldra nemenda. Aðilar úr áfallaráði veita nemendum stuðning og vinna með þá næstu daga ef þess er óskað. Aðilar úr áfallaráði ræða við nemendur í öðrum hópum ef þörf krefur. Skólastjóri ásamt aðila úr áfallaráði fer heim til starfsmanns. Skólinn sendir samúðarkveðju til starfsmanns.
Ítarefni: Aðstoð við börn eftir áfall.
Rýmingaráætlun Austurbæjarskóla
Ef brunaviðvörunarkerfið fer í gang skal unnið eftir eftirfarandi rýmingaráætlun.
- Umsjónarmaður eða staðgenglar hans bregðast strax við og fara að stjórntöflu brunaviðvörunarkerfis og kanna hvaðan brunaboðið kemur.
- Kennarar undirbúa rýmingu kennslustofunnar og fara eftir ákveðnum leiðbeiningum sem eru að finna í öllum kennslustofum. Teikningar af útgönguleiðum eru í kennslustofum og á göngum skólans. Nemendur yfirgefa ekki kennslustofu fyrr en kennari hefur kannað hvort útgönguleiðin sé greið. Hver kennari er ábyrgur fyrir þeim bekk/hópi sem hann er að kenna þegar hættuástand skapast og þegar stofan er yfirgefin þarf hann að muna eftir nafnalistanum. Ætíð skal velja þann neyðarútgang sem er næstur.
- Skólastjórnandi hefur samband við slökkviliðið í síma 112, tilkynnir um eld eða gefur skýringar á brunaboðinu. Ef um falsboð er að ræða er slökkt á brunavælum sem gefur til kynna að hættuástand sé liðið hjá.
- Þegar komið er út á söfnunarsvæðin er mjög mikilvægt að nemendur standi í röð hjá sínum kennara sem fer yfir nafnalista og kannar hvort allir séu komnir út. Kennari kemur síðan upplýsingum um stöðuna til umsjónarmanns söfnunarsvæðis.
- Umsjónarmenn söfnunarsvæða koma upplýsingum um stöðuna til skólastjóra eða umsjónarmanns.
- Slökkviliðið kemur á staðinn. Skólastjóri gefur varðstjóra upplýsingar um stöðuna.
Þegar upp koma þær aðstæður að ekki er ráðlegt að senda nemendur út í frímínútur er ákvörðun um inniveru tekin af skólastjóra eða aðstoðarskólastjóra. Ákvörðun um inniveru er tilkynnt símleiðis af skrifstofu skólans í alla viðkomandi árganga, á bókasafn og til Helga sem kemur boðunum áfram til skólaliða. Öllu starfsfólki er auk þess sendur tölvupóstur þar sem tilkynnt er um inniveru nemenda. Starfsfólk sem á að gegna útigæslu í umræddum frímínútum sinnir þá innigæslu í staðinn. Áður en frímínútur hefjast er æskilegt að kennarar reyni eftir föngum að finna nemendum viðfangsefni sem hafa ofan af fyrir þeim meðan á inniveru stendur. Er þess vænst að nemendur haldi sig í bekkjarstofu. Þegar framangreind áætlun hefur verið virkjuð er nemendum óheimilt að fara út.
Sú hefð hefur skapast að hafa bókasafnið opið þegar nemendur inni í frímínútum en slíkt er þó ávallt háð aðstæðum og samþykki starfsfólks á bókasafni.
Austurbæjarskóli starfar í anda Mannréttindastefnu Reykjavíkurborgar en þar segir:
"Mannréttindi eru varin í stjórnarskrá Íslands, sem og fjölmörgum mannréttindasáttmálum og yfirlýsingum sem Íslendingar eiga aðild að. Í mannréttindastefnu Reykjavíkurborgar eru mannréttindaákvæði stjórnarskrárinnar og alþjóðlegir sáttmálar lagðir til grundvallar. Mannréttindastefnan er byggð á jafnræðisreglunni og miðar að því að allar manneskjur fái notið mannréttinda án tillits til uppruna, þjóðernis, litarháttar, trúarbragða, stjórnmálaskoðana, kynferðis, kynhneigðar, aldurs, efnahags, ætternis, fötlunar, heilsufars eða annarrar stöðu. Reykjavíkurborg hefur jafnræði borgaranna og mannréttindi að leiðarljósi í öllu starfi og hefur einsett sér að vera í fararbroddi í mannréttindamálum með sérstakri áherslu á jafna stöðu kvenna og karla. Með því að vinna eftir samræmdri mannréttindastefnu er lögð áhersla á heildstæða sýn í þágu borgarbúa þar sem margir tilheyra fleiri en einum þeirra hópa sem hún nær til"
(Reykjavíkurborg, 2014).
Jafnréttisáætlun og aðgerðaráætlun jafnréttisáætlunar grundvallast á þessu.
Umhverfsfræðsla nemenda tekur mið af aðalnámskrá grunnskóla. Kennslan fer fram bæði fram innandyra í kennslustofum og úti í nærumhverfi skólans. Þau verkefni sem unnin eru í tengslum við umhverfismál skólans miða bæði að kennslu í bekk og til að bæta daglegan rekstur skóla. Þau auka þekkingu nemenda og skólafólks og styrkja grunn að því að tekin sé ábyrg afstaða og innleiddar raunhæfar aðgerðir í umhverfismálum skólans.
Markmið er að:
- Bæta umhverfi skólans, minnka úrgang og notkun á vatni og orku.
- Efla samfélagskennd innan skólans.
- Auka umhverfisvitund með menntun og verkefnum innan kennslustofu og utan.
- Veita nemendum menntun og færni til að takast á við umhverfismál.
- Tengja skólann við samfélag sitt, fyrirtæki og almenning.
Lögð er áhersla á:
- Að nemendur læri gildi þess að ganga vel um náttúruna og umhverfi sitt.
- Að draga úr sóun verðmæta og nýta vel auðlindir jarðar.
- Að endurnýta og endurvinna eins og kostur er.
- Að auka umhverfisvitund nemenda, foreldra og starfsfólks.
Leiðir:
- Sjálfbærni er einn af grunnþáttum skólastarfs og sem slíkur á sjálfbærni að endurspeglast í starfsháttum skóla, samskiptum og skólabrag og vera sýnilegur í skólastarfinu öllu.
- Kennarar nýta fjölbreyttar leiðir í umhverfisfræðslu og nýta sér m.a. grenndarsamfélag skólans
- Allt hreinsiefni sem keypt er inn til ræstinga er umhverfisvottað.
- Nemendur fara heim með afganga af nesti (liður m.a. í að sporna við matarsóun)
- Allt sorp er flokkað.
Árangursríkt skólastarf byggir á góðri samvinnu og gagnkvæmu trausti heimilis og skóla og er mikilvægur þáttur í skólastarfinu. Þennan þátt þarf að rækta enda þekkja foreldrar börnin sín best og því er nauðsynlegt að þeir hafi samband við kennara og skólastjórnendur hvenær sem þeir telja þörf á og á sama hátt mun skólinn hafa samband ef þurfa þykir. Við megum aldrei gleyma því að foreldrar eru sterkasti mótunaraðili barnanna og hafa ótvíræð áhrif á hvernig börnin upplifa skólagöngu sína. Því skiptir þátttaka þeirra í námi barnanna verulegu máli. Jákvætt viðhorf er okkur öllum ákaflega mikilvægt. Rannsóknir sýna að nemendur sem alast upp við jákvætt viðhorf heimilisins til skólans standa sig yfirleitt betur í námi og fara út í lífið með jákvæðari viðhorf til tilverunnar en þeir sem búa við neikvætt viðhorf til skólans. Með þessu er ekki verið að segja að foreldrar eigi að sleppa allri gagnrýni, þvert á móti, þeir eiga að skipta sér af og tala þá beint við starfsfólk skólans. Mikilvægt er að foreldrar hvetji börn sín til dáða og sýni viðfangsefnum þeirra áhuga. Þá er einnig mikilvægt að þeir kenni börnum sínum að sýna kurteisi í garð annarra og koma heiðarlega fram.
Á heimasíðu Reykjavíkurborgar eru fjölþættar upplýsingar um markmið og tilgang foreldrasamstarfs í grunnskólum, sjá hér.
Allir foreldrar barna í Austurbæjarskóla eru félagar í foreldrafélagi skólans. Árlega kjósa foreldrar stjórn félagsins og á stjórnin samráðstíma með skólastjóra einu sinni í mánuði. Auk foreldrafélags eiga foreldrar tvo fulltrúa í skólaráði.
Í Austurbæjarskóla er litið svo á að heimanám sé af hinu góða þegar það hefur jákvæð áhrif og styður við nám nemenda.
Í sumum tilfellum kann heimanámið hinsvegar að valda of miklu álagi og of mikilli spennu á nemandann og heimilin og þá er heimanámið hætt að hafa jákvæð áhrif.
Heimanámið má ekki vera íþyngjandi og þrátt fyrir að meginreglan sé sú að boðið sé upp á heimanám þá er það alla jafna valkvætt.
Í aðalnámskrá grunnskóla segir að foreldrar beri ábyrgð á því að börn þeirra sinni því heimanámi sem skólinn og foreldrar hvers einstaks barns hafi orðið ásátt um.
Í skólanum er lögð megináhersla á að heimanámið sé samræmt innan árganga og lestur er ævinlega í öndvegi.
Skólinn er griðastaður barnanna og mikil ábyrgð hvílir á starfsfólki að hlúa að börnum og veita þeim öryggi í daglegu starfi. Velferð allra er sameiginlegt verkefni og það er skólanum keppikefli að hver nemandi njóti bernsku sinnar og eigi góðar minningar úr skóla.
Þegar fjallað er um velferð nemenda er horft til þriggja þátta:
- Félagslegs öryggis nemenda og að þeir séu metnir út frá eigin verðleikum
- Tilfinningalegs öryggis nemenda sem finna væntumþykju annarra.
- Trausts þar sem nemendur átta sig á að þeir geti treyst þeim sem eru að mennta þá.
Öryggis- og slysavarnir skólans eru mótaðar samkvæmt Öryggishandbók grunnskóla (Mennta- og menningarmálaráðuneytið, 2014). Í öryggisnefnd skólans eiga sæti auk skólastjóra tveir öryggisverðir sem eru skipaðir af skólastjóra og tveir öryggistrúnaðarmenn sem kosnir eru af starfsmönnum skólans. Þeir vinna saman og fylgjast með því að aðbúnaður, hollustuhættir og öryggi sé samkvæmt lögum og reglum og tilmælum Vinnueftirlits.
SHS hefur í samvinnu við fræðsluyfirvöld allra sveitafélaganna útbúið reglur fyrir foreldra og skólayfirvöld um röskun á skólastarfi vegna óveðurs með tilmælum um viðbrögð foreldra og forráðamanna. Jafnframt var ákveðið að fylgjast með veðri og veðurspám og senda eftir atvikum út tilkynningar í samræmi við þessar reglur í samráði við slökkvilið, lögreglu, fræðsluyfirvöld og aðra. Sjá:
Röskun á skólastarfi vegna óveðurs
English - Disruption of School Operations
ภาษาไทย - ผลกระทบต่อการเรียนการสอนเนื่องจากสภาพอากาศที่เลวร้าย
Język polski - ZAKŁÓCENIA PRACY SZKÓŁ Z UWAGI NA ZŁĄ POGODĘ
Russky yazyk: ИЗМЕНЕНИЯ В РАБОТЕ ШКОЛ В СВЯЗИ С НЕПОГОДОЙ
Español: nterrupción de las actividades escolares debido a tormentas
Jafnréttis- og aðgerðaráætlun Austurbæjarskóla 2020-2021, smellið hér.
Starfsmannastefna Austurbæjarskóla byggir á Starfsmannastefnu Reykjavíkurborgar þar sem markmiðið er að hafa alltaf á að skipa hæfum og áhugasömum starfsmönnum sem geta tryggt nauðsynlegt frumkvæði í störfum, veitt góða þjónustu og brugðist við síbreytilegum þörfum. Starfsmannastefnan á að tryggja starfsmönnum ákveðin starfsskilyrði og möguleika á að vaxa og dafna í starfi. Leitast skal við að skapa starfsmönnum aðstæður til að samræma starf og fjölskyldulíf.
Leiðarljós
• Virðing fyrir fólki
• Samvinna og sveigjanleiki
• Jafnræði
• Þekking og frumkvæði
• Þjónustulund
Í þessu felst að stofnanir og fyrirtæki Reykjavíkurborgar:
• virða alla starfsmenn sína og viðhorf þeirra mikils,
• virkja starfsmenn til að móta og bæta starfsemina,
• starfa í anda jafnræðis og jafnréttis,
• bjóða upp á verkefni þar sem hæfileikar hvers og eins fá notið sín,
• stuðla að því að starfsmenn geti aukið þekkingu sína og starfshæfni,
• leggja áherslu á gæði starfs og hátt þjónustustig,
• upplýsa starfsmenn um hlutverk þeirra og ábyrgð.
Þetta gerir þær kröfur til starfsmanna að þeir:
• virði samstarfsmenn sína,
• séu viðbúnir þróun og breytingum og taki þátt í þeim,
• viðhaldi þekkingu sinni og auki við hana,
• sinni starfi sínu af trúmennsku og metnaði,
• sýni ábyrgð.
Starfsmannastefna í heild sinni; prentvæn útgáfa.
Starfsmannastefna; ensk útgáfa (English-Human Resource Policies).
Forvarnarstefna og aðgerðaráætlun, smellið hér.
Læsisteymi Austurbæjarskóla vinnur að gerð nýrrar læsisstefnu í samstarfi við Miðju máls og læsis. Hófst innleiðing nýrrar stefnu á skólaárinu 2017-18. Læsisstefna Austurbæjarskóla 2019-2020, smellið hér
Vinsamlegt samfélag er verkefni sem varð til við sameiningu leikskóla, grunnskóla og frístundastarfs í eitt svið; skóla- og frístundasvið Reykjavíkurborgar. Með vinsamlegu samfélagi er átt við samfélag þar sem framkoma allra einkennist af virðingu, samkennd og ábyrgð. Eineltisáætlun Austurbæjarskóla tekur mið af leiðbeinandi gátlista sem settur var fram undir merki Vinsamlegs samfélags fyrir þá sem vinna að gerð eineltisáætlana á starfsstöðum sfs, smellið hér.
Hér má finna stefnu skóla- og frístundasviðs Reykjavíkur í eineltismálum auk ítarefnis, smellið hér.
Austurbæjarskóli er þátttakandi í Olweusáætluninni gegn einelti. Í þeirri áætlun felst virk samvinna heimilis og skóla í forvörnum gegn einelti og viðbrögðum við einelti ef það kemur upp. Nemendur og foreldrar eru hvattir til að láta umsjónarkennara strax vita, ef grunur vaknar um einelti. Umsjónarkennara ber að rannsaka málið strax í samvinnu við eineltisteymi. Henný Sigurjónsdóttir náms-og starfsráðgjafi er teymisstjóri eineltisteymis.
Foreldrabæklingur
Í tengslum við Olweus-verkefnið er gefin út handbók fyrir foreldra þar sem er að finna upplýsingar um einelti, birtingarform þess og hvernig bregðast skuli við því. Bæklingurinn er afhentur foreldrum á haustfundum og liggur frammi á skrifstofu skólans.
Meðferð eineltismála
Þegar vitneskja berst um að nemendur séu lagðir í einelti í skólanum fer ákveðið ferli af stað. Þessi vitneskja getur komið frá starfsfólki skólans, nemendum eða foreldrum:
- Umsjónarkennari fær vitneskju um og greinir vandann í samvinnu við eineltisteymi. Leitað skal eftir upplýsingum sem víðast svo sem hjá öðrum nemendum, starfsfólki og kennurum. Rætt er við (oft með aðstoð námsráðgjafa) viðkomandi nemanda/nemendur og leitað eftir upplýsingum hjá foreldrum.
- Ef umsjónarkennari, eftir slíka athugun og í samráði við t.d.eineltisteymi, metur það svo, að um einelti sé að ræða skal foreldrum þeirra nemenda sem hlut eiga að máli gerð grein fyrir því. Gildir það jafnt um gerendur og þolendur.
- Innan skólans fer síðan af stað markviss vinna skv. aðferðafræði Olweusar. Hún felst m.a. í alvarlegum viðtölum við gerendur þar sem þeim er gerð skýr grein fyrir alvöru málsins, viðbrögðum skólans og þeim afleiðingum sem áframhaldandi háttarlag mun hafa. Þolendum skal tryggt öryggi eftir því sem kostur er og í samvinnu við foreldra þeirra skapað öryggisnet sem hindrar að eineltið haldi áfram. Það felst m.a. í því að starfsfólk og kennarar sem að bekknum koma eru beðin um að fylgjast með samskiptum viðkomandi nemenda. Einnig gefst þolanda kostur á reglulegum viðtölum við námsráðgjafa og gerandi er í vikulegum viðtölum við fulltrúa úr eineltisteymi sem fer yfir samskipti vikunnar uns eineltið hættir.
- Einelti upprætt
Viðbrögð við einelti af hvaða toga sem er, misalvarlegu eftir atvikum, ættu alltaf:
- Að vera skýr, einlæg og nákvæm, laus við niðurlægingu, kaldhæðni, árásir, hótanir eða þvinganir.
- Að birtast tafarlaust og vera fylgt eftir til lengri tíma, t.d. með endurteknum viðtölum.
- Að fela í sér skráningu á atburðum, þátttakendum og viðbrögðum. Skráningarblað, smellið hér.
- Að fela í sér samvinnu við foreldra strax á fyrstu stigum íhlutunar; upplýsingar um aðgerðir berist þeim jafnóðum.
- Að veita nemendum tækifæri til að ræða sín á milli mögulegar lausnir og efla vitund þeirra um ábyrgð sína.
Ætíð er unnið samkvæmt Olweuskerfinu við meðferð eineltismála. Þegar eineltið hefur verið upprætt undirrita viðkomandi foreldrar og nemendur að unnið hafi verið með málið og það sé upprætt.
Skráningarblað - Inngrip vegna gruns um einelti, smellið hér.