Skip to content

Hvað er einelti og hvernig má fyrirbyggja það?

Einelti felur í sér að einstaklingur er tekinn fyrir af einum eða hópi með síendurtekinni stríðni, látbragði, niðrandi ummælum, sögusögnum, andlegri kúgun, hótunum af ýmsu tagi, félagslegri höfnun eða markvissri útskúfun.

Einelti getur einnig birst í samskipum í vefmiðlum. Það er hlutverk fullorðna fólksins að sjá til þess að börn umgangist vefinn af ábyrgð.

Hvað geta foreldrar gert ef barn þeirra verður fyrir einelti?

Foreldrar skulu alltaf taka vísbendingar eða upplýsingar um einelti alvarlega. Nauðsynlegt er að ræða við barnið, hlusta vel á það og sýna því umhyggju og skilning.

Foreldrar þurfa því næst að ræða við umsjónarkennara eða tilkynna um meint einelti beint til eineltisteymis skólans.

Tilkynningu um einelti skal senda til:

Hennýjar Sigurjónsdóttur námsráðgjafa: henny.sigurjonsdottir1@rvkskolar.is

Kristínar Jóhannesdóttur skólastjóra: kristin.johannesdottir@rvkskolar.is

Sigríðar Valdimarsdóttur aðstoðarskólastjóra: sigridur.valdimarsdottir@rvkskolar.is

Eineltisáætlun Austurbæjarskóla

Eineltisáætlun Austurbæjarskóla, smellið hér tekur mið af leiðbeinandi gátlista sem settur var fram undir merki Vinsamlegs samfélags fyrir þá sem vinna að gerð eineltisáætlana á starfsstöðum sfs.

Hér má finna stefnu skóla-  og frístundasviðs Reykjavíkur í eineltismálum auk ítarefnis, smellið hér

Austurbæjarskóli er þátttakandi í Olweusáætluninni gegn einelti. Í þeirri áætlun felst virk samvinna heimilis og skóla í forvörnum gegn einelti og viðbrögðum við einelti ef það kemur upp. Nemendur og foreldrar eru hvattir til að láta umsjónarkennara strax vita, ef grunur vaknar um einelti. Umsjónarkennara ber að rannsaka málið strax í samvinnu við eineltisteymi. Henný Sigurjónsdóttir náms-og starfsráðgjafi er teymisstjóri eineltisteymis. Þegar tilkynning berst eineltisteymi eða umsjónarkennara greinir námsráðgjafi nemendaverndarráði frá því að tilkynning hafi borist og vinnsla sé hafin. Þegar vinnslu málsins er lokið greinir hún fær ráðið upplýsingar um það.

Meðferð eineltismála

Þegar vitneskja berst um að nemendur séu lagðir í einelti í skólanum fer ákveðið ferli af stað. Þessi vitneskja getur komið frá starfsfólki skólans, nemendum eða foreldrum:

  •  Umsjónarkennari greinir vandann í samvinnu við eineltisteymi. Leitað skal eftir upplýsingum sem víðast svo sem hjá öðrum nemendum, starfsfólki og     kennurum. Rætt er við (oft með aðstoð námsráðgjafa) viðkomandi nemanda/nemendur og leitað eftir upplýsingum hjá foreldrum.
  •  Ef umsjónarkennari, eftir slíka athugun og í samráði við t.d.eineltisteymi, metur það svo, að um einelti sé að ræða skal foreldrum þeirra nemenda sem hlut eiga   að máli gerð grein fyrir því. Gildir það jafnt um gerendur og þolendur.
  •  Innan skólans fer síðan af stað markviss vinna skv. aðferðafræði Olweusar. Hún felst m.a. í því að greina stöðuna út frá eineltishringnum og alvarlegum viðtölum við gerendur þar sem þeim er gerð skýr grein   fyrir alvöru málsins, viðbrögðum skólans og þeim afleiðingum sem áframhaldandi háttarlag mun hafa. Þolendum skal tryggt öryggi eftir því sem kostur er og í   samvinnu við foreldra þeirra skapað öryggisnet sem hindrar að eineltið haldi áfram. Það felst m.a. í því að starfsfólk og kennarar sem að bekknum koma eru   beðin um að fylgjast með samskiptum viðkomandi nemenda. Einnig gefst þolanda kostur á reglulegum viðtölum við námsráðgjafa og gerandi er í vikulegum   viðtölum við fulltrúa úr eineltisteymi sem fer yfir samskipti vikunnar uns eineltið hættir.

Einelti upprætt
Viðbrögð við einelti af hvaða toga sem er, misalvarlegu eftir atvikum, eru alltaf:

  • Skýr, einlæg og nákvæm, laus við niðurlægingu, kaldhæðni, árásir, hótanir eða þvinganir.
  • Birtast tafarlaust og er fylgt eftir til lengri tíma, t.d. með endurteknum viðtölum.
  • Fela í sér skráningu á atburðum, þátttakendum og viðbrögðum
  • Fela í sér samvinnu við foreldra strax á fyrstu stigum íhlutunar; upplýsingar um aðgerðir berist þeim jafnóðum.
  • Veita nemendum tækifæri til að ræða sín á milli mögulegar lausnir og efla vitund þeirra um ábyrgð sína.

Þegar eineltið hefur verið upprætt undirrita viðkomandi foreldrar og nemendur að unnið hafi verið með málið og það sé upprætt.

Skráningarblað – Inngrip vegna gruns um einelti, smellið hér.

Ert þú foreldri barns sem leggur aðra í einelti?

Öllum foreldrum eru það vonbrigði og visst áfall þegar skilaboð berast frá skóla um að barn þeirra taki þátt í einelti. Foreldrar verða engu að síður að hafa hugfast að það gagnast ekki barni þeirra að afsaka hegðun þess, réttlæta eða gera lítið úr henni. Það að taka alvarlega á vandanum hjálpar ekki aðeins þolandanum heldur einnig barninu þínu. Rannsóknir sýna að börn sem sýna ofbeldishegðun gagnvart félögum sínum eru í áhættuhópi hvað varðar andfélagslega hegðun sem getur meðal annars leitt til glæpa. Þess vegna er nauðsynlegt að beina barninu inn á farsælar leiðir í samskiptum sínum við aðra. Fyrsta skrefið til að hjálpa barninu er að taka upp jákvætt og markvisst samstarf við skólann.

Yfirleitt er ekki mælt með því að foreldrar þolenda hafi sjálfir samband við foreldra gerenda, heldur er lagt til að umsjónarkennari hafi umsjón með því. Hann boðar til fundar með nemendum sem hlut eiga að máli og foreldrum þeirra. Þar útskýrir hann aðstæður og leitar eftir samkomulagi um aðgerðir til að stöðva eineltið. Þessu samkomulagi er fylgt eftir í samstarfi við foreldra.