Fundur í skólaráði 18. október 2019
Mættir voru á fundinn Dögg Ármannsdóttir fh. foreldra, Kristófer Nökkvi fh. grenndarsamfélags, Unda Brauna og Iðunn Sighvatsdóttir fh. nemenda, Steindóra K. Gunnlaugsdóttir, fh. kennara, Kristín Jóhannesdóttir skólastjóri og Sigríður aðstoðarskólastjóri ritar fundinn.
- Starfsáætlun skólaráðs kynnt. Fundir verða annan föstudag í mánuði kl. 8.20.
- Starfsáætlun skóla
Á hverju ári er ný starfsáætlun gefin út og veitir hún miklar upplýsingar um skólastarfið s.s. stefnu skólans, skipulag kennslu o.m.fl.. Er hún vistuð á heimasíðu.
- Kynning á niðurstöðum úr Skólapúlsi.
Skólapúlsinn er lagður fyrir 3x yfir árið og þetta eru fyrstu niðurstöður. Allir nemendur frá 1. – 9. bekkjar taka þátt yfir árið. Fyrstu niðurstöður eru komnar í hús og hafa þær ákveðið forspágildi þrátt fyrir að fáir nemendur séu undir. Kristín fór yfir niðurstöður og hvaða spurningar lágu að baki hverjum þætti.
- Málefni líðandi stundar:
Nemenda-foreldra og starfsmannaþing:
Nú eru öll þingin afstaðin og þykja hafa tekist vel. Mismunandi spurningar voru lagðar fyrir hvern hóp. Í starfsmannahópnum var spurt um öll gildi skólans. Á foreldraþingi var spurt um gildið vilja, og með vísan í skóla, nærsamfélag og foreldrasamskipti. Á nemendaþingi var spurt um vöxt og hugarfar vaxtar.
Lýsing á skólalóð:
Nú er að hefjast annar þáttur lýsingar á lóðinni. Verið er að tala um meiri lýsingu á allri lóðinni. Mikil viðhaldsþörf er á lóðinni og margbúið að kalla eftir viðgerðum á t.d. gervigrasinu. Þá hefur líka verið marg ítrekað óskað eftir girðingum og hliði á skólalóð.
Forvarnir og fíkniefni:
Dögg kom fram með fyrirspurn, hvað getum við gert sem samfélag til að sporna við vape-menningu og hvernig eigum við að bregðast við. Kristín sagði frá því að við hefðum ekki komið vel út í síðustu könnun varðandi neyslu á áfengi, vape og fíkniefnum. Vissulega er verið að setja inn fyrirlestra, fræðslu og fleira en það þurfi að hugsa það upp á nýtt og fara með markvissa fræðslu inn neðar í aldri. Þá er áhorf á klámi mjög algengt, sérstaklega hjá drengjum á miðstigi og unglingum. Nú sé undirbúningur hafinn á endurskoðun á forvarnaráætlun skólans m.t.t. breytt umhverfis.
Fundur í skólaráði 8. nóvember 2019
Mættir voru á fundinn Dögg Ármannsdóttir og Ólafur Eysteinn Sigurjónsson fh. foreldra, Iðunn Gróa Sighvatsdóttir fh. nemenda, Steindóra Kr. Gunnlaugsdóttir fh. kennara, Henný Sigurjónsdóttir fh. starfsmanna, Kristín Jóhannesdóttir skólastjóri. Sigríður Valdimarsdóttir aðstoðarskólastjóri ritar fundargerð.
Fyrsta mál á dagskrá er umsögn um starfsáætlun, sem hefur verið uppfærð í haust. Starfsáætlun er lögum samkvæmt gefin út árlega. Starfsáætlun er árlega lögð fyrir skóla-og frístundaráð Reykjavíkur. Er hún vistuð á heimasíðu skólans.
Dögg segir að hún hafi verið ánægð með flest það sem hún las í starfsáætlun og t.d. hafi markmiðin og stefnan verið sterk og skýr, helst vildi hún að þetta væri lesið vikulega fyrir alla, nemendur og starfsfólk. Skólastjóri greindi frá því að stefna skólans og einkunnarorð væru lögð inn. Samkvæmt Iðunni skilar sú innlögn sér ekki alveg til nemendanna.
Athugasemd kom fram varðandi viðburðadagatal skólans, þar væri gott að færa inn reglulega og uppfæra upplýsingar. Það mun verða gert.
Spurt var hvað hafi orðið um deildarstjóra unglingadeildar. Skólastjóri svaraði því til að sl. fimm ár hefði stjórnskipulag skólans ekki gert ráð fyrir þeirri stöðu. Skólastjóri og aðstoðarskólastjóri sinna því verkefni en auk þess eru stigstjórar á öllum stigum. Lögð hefur verið áhersla á að færa fjármagn beint til nemenda, draga úr yfirstjórn.
Fram kom athugasemd um að stundakennarar hafi ekki aðgang að Mentor, t.d. hafi skrekkskennari ekki sent upplýsingar varðandi æfingatíma til foreldra. Aðstoðarskólastjóri staðfesti að skrekkskennari fékk nöfn og netföng til að senda upplýsingar til nemenda og foreldra.
Þá kom fram mikilvægi þess að nemendur væru upplýstir um markmið námsins og það væri gert reglulega. Það er í anda leiðsagnarnáms og góðra kennsluhátta og eðlilegt að því sé fylgt eftir. Mikilvægt er að brýna fyrir kennurum að nota leiðsagnarnám. Af hverju eru nemendur að læra þetta og hitt! Tryggja þarf að ekki verði um endurtekningu á námsefni að ræða.
Vellíðan, eitt af einkunnarorðum skólans þarf að fá meira vægi. Það ætti m.a. að fela í sér að íþróttir verði hluti af daglegu lífi nemenda, ekki bara keppni. Skólastjóri lagði áherslu á að hér séu kenndar þrjár stundir á viku (þrír dagar) og þá standi tveir útaf. Þá eru vinaliðar á miðstigi og frístundaráðgjafi í 20% stöðugildi frá áramótum í 1. – 4. bekk. Síðan sé það Henný sem leiði TUFF, frístundir fyrir nemendur þar sem fyrstu þrír mánuðirnir eru gjaldfrjálsir en síðan komi frístundakortið inn. Nemendur í Austurbæjarskóla eru mikið á ferð um hverfið til að sækja ýmsa viðburði og fræðslu, þetta sé iðulega farið á tveimur jafn fljótum. Þetta sé hreyfing sem nemendur geri sér oft ekki grein fyrir, það þurfi að leggja inn „við hreyfum okkur“.
Gott væri að kynna nýja starfsmenn með tölvupósti, ekki bara til starfsfólks heldur líka til foreldra.
Varðandi lengri nemendaferðir þá er hefðin sú að safnað er fyrir allan hópinn. Skólastjóri sagði að lögum samkvæmt ætti grunnskólanám að vera gjaldfrjálst. Hins vegar væri áralöng hefð fyrir því í Austurbæjarskóla að nemendur færu í þrjár ferðir, að Reykjum, til Dalvíkur og í Þórsmörk sem greiða þyrfti fyrir. Árlega þarf foreldrahópurinn í þessum þremur árgöngum að taka ákvörðun um hvort þeir vilji halda í þessa hefð, þ.e. að farið verði í þessar ferðir. Verði það ofan á þarf því næst að taka ákvörðun um hvort hrinda eigi af stað í söfnun eða hvort foreldrar kjósi frekar að greiða fyrir ferðalagið án þess að til komi söfnun. Verði ákveðið (eins og hefð er fyrir) að hefja söfnun þá skal safnað allan fyrir hópinn. Sú hefð hefur verið í Austurbæjarskóla um árabil og hafa foreldrar talið hana tryggja mestan jöfnuð. Fram kom á fundinum að nú eru fulltrúar foreldra ekki alveg sáttir við að ráðist verði í söfnun þar sem reynslan sé að fámennur hópur þurfi alla jafna að taka á sig hita og þungan söfnunum a.m.k. reyndist það vera þannig í síðustu söfnunum. Skólastjóri viðurkennir að ekki komi nógu skýrt fram í starfsáætlun að foreldrar hafi ávallt val um hvort þeir vilji greiða gjaldið eða fara í söfnun. Verður það leiðrétt hér með en ítrekað að skila þurfi inn greiðslu áður en lagt er af stað.
Ólafur, fulltrúi foreldra kom með athugasemd varðandi námið í unglingadeild, að þar væri áskorun nemenda í námi ekki alltaf nógu mikil. Spurning hvort nemendur geti tekið aðrar greinar, t.d. framhaldsskólaáfanga. Skólastjóri segir svo vera en þá greiði foreldrar fyrir það. Austurbæjarskóli hafi sent nemendur í Verzlunarskólann í fjarnám. Einnig komu foreldrar með athugasemd varðandi tungumálanám, dönskunámið væri alls ekki nógu krefjandi og skildi lítið eftir hjá nemendum. Einnig var gerð athugasemd varðandi skort á verklegum tímum í raunvísindum. Því var svarað til að hluti af skýringu gæti verið að efnið er kennt í lotum og nú er lota sem byggir minna á tilraunum og verklegum æfingum en aðrar.
Skólaráð samþykkti starfsáætlun.
Foreldrar spurðu hvernig skólinn væri að nýta Spennistöðina og hvaða tími væri til ráðstöfunar. Skólinn hefur afnot frá kl. 8 – 14. Kynna þarf stofutöflu fyrir kennurum og fá kennslu frá starfsfólki frístundar á búnað Spennistöðvar.
Skólastjóri boðar til aukafundar til að fara í göngu um skólann, þar verður farið yfir öryggismál og aðbúnað.
Ólafur spyr um göngustíg í gegnum skólalóð. Skólastjóri segir að ítrekað hafi verið sent bréf, síðast í haust varðandi aðgengi að skólalóð. Starfsmenn frá LISKA komu fyrir u.þ.b. þremur vikum og skoðuðu lýsingu á lóðinni. Aðspurð um myndavélar sagði skólastjóri að þær væru í skoðun. Fullur vilji væri fyrir því hjá stjórnendum að koma upp slíkum búnaði. Ólafur kom með fyrirspurn um hálkuvarnir á skólalóð, t.d. þegar kæmi að tröppunum meðfram skólanum. Skólastjóri svaraði því til að samband væri haft við hverfastöð sem á að sjá um að salta og sanda, en umsjónamaður fasteigna salti stundum.