Skólastarf næstu daga

Eins og komið hefur fram í fjölmiðlum mun skóla-og frístundastarf fara fram með takmörkunum næstu fjórar vikur.
Í Austurbæjarskóla verður skóladagur nemenda sem hér segir:
1.-4. bekkur 8.20-11.20
8.-10. bekkur 8.20-11.20
5.-7. bekkur 12.00-14.40
Skólinn verður opinn frá kl. 8.00 og verður opið inn í kennslustofur nemenda. Fylgi foreldrar börnum sínum í skólann eru þeir beðnir að kveðja þau við útidyr þar sem tekið verður á móti börnunum.

Nemendur verða á tveimur aðskildum svæðum í skólanum. Lokað verður á milli svæða. Nemendur í 1.-4. bekk verða að koma eingöngu inn um aðalinngang þar sem milligangar við bókasafn á 2. hæð og á 3. hæð verða lokaðir.
Nemendur í unglingadeild koma inn Vitastígsmegin.

Nemendur í 5. og 6. bekk koma eingöngu inn um aðalinngang. Nemendur í 7. bekk koma eingöngu inn Vitastígsmeginn. Brýnt er að nemendur fari að þessum fyrirmælum. Starfsmenn munu fylgja nemendum út í lok skóladags.
Samkvæmt fyrirmælum heilbrigðisyfirvalda er mikilvægt að nemendur séu að hámarki 20 í hverri kennslustofu og blandist ekki milli hópa s.s. í matsal. Skólamötuneyti er því lokað. Nemendur þurfa þ.a.l. að koma með nesti og vatn á brúsa að heiman.

Frímínútur verða ekki með hefðbundnu sniði heldur verður útvera skipulögð með kennurum. Ekki verður unnt að halda uppi list-og verkgreinakennslu né skólaíþróttum. Stoðþjónusta verður veitt inni í bekk.
Komi upp smit í bekk eða hjá starfsmanni sem starfar með hópnum fer skv. fyrirmælum sóttvarnarlæknis allur sá hópur í heimasóttkví. Veikist nemandi á skólatíma munum við hafa samband við foreldra og eru þeir beðnir að sækja barn sitt. Mælst er til að börn og starfsfólk með flensueinkenni verði heima.

Gott samstarf hefur verið við Frístundaheimilið Draumaland og Félagsmiðstöðina 101. Hugmyndin er sú að þau börn sem eru í Draumalandi fari heim í hádegismat kl. 11.20 og komi svo aftur í frístund kl. 13.20. Skapast þá hádegishlé þar sem foreldrar fara með börn sín heim, gefa þeim að borða og koma svo með þau aftur. Félagsmiðstöðin 101 verður opin fyrir ákveðna bekki ákveðna daga. Koma nánari fyrirmæli um skipan frístundastarfsins frá Kristófer og Friðmeyju. Hvað varðar starf skólahljómsveitar þá munu nemendur sem eru í skólahljómsveitinni fá frekari fyrirmæli frá tónlistarkennurum.

Þetta fyrirkomulag er sett fram með fyrirvara um breytingar.