Stefna skólans

Stefna Austurbæjarskóla tekur mið af lögum, reglugerðum, alþjóðasamþykktum, stefnu Reykjavíkurborgar í fræðslumálum og félagslegu umhverfi skólans. Öllum skal tryggt jafnrétti til náms án tillits til kyns, þjóðernis, stéttar, stöðu og trúarbragða. Austurbæjarskóli er fjölmenningarlegur skóli þar sem tæplega 35% nemenda eru af erlendum uppruna, af 30 mismunandi þjóðernum. Austurbæjarskóli er skóli án aðgreiningar. Í því felst að skólastarfið er lagað að þörfum allra nemenda. Í skólanum er lögð áhersla á sjálfsagðan fjölbreytileika fólks sem endurspeglast i öllum bekkjum. Nemendur eiga uppruna sinn í ýmsum þjóðlöndum, þau hafa ólík viðhorf, ólík áhugamál og mismunandi hæfileika. Markmið fjölmenningarlegrar kennslu er að nemendur læri að virða fjölbreytileikann og lögð er áhersla á að nýta hann á jákvæðan hátt. Lögð er áhersla á samvinnu, að hver nemandi hefur sinn styrkleika, að hver og einn sé virtur á eigin forsendum og að hæfileikar allra nýtist hópnum. Kennarar skulu beita fjölbreyttum kennsluháttum með það að markmiði að nemendur verði virkir í kennslustundum og fái notið hæfileika sinna.

Prenta | Netfang