Námsmat og vitnisburðakerfi

Í aðalnámsskrá grunnskóla er kveðið á um nýjan matskvarða. Þar eru skilgreind matsviðmið sem lýsa þeirri hæfni sem liggur að baki hverri einkunn. Mat á hæfni byggir ekki eingöngu á mati á þekkingu nemandans eða leikni til að framkvæma, heldur getu hans til að skipuleggja, útskýra, túlka og nota hugtök um efni viðkomandi námsgreinar eða námssviðs.

 
Við mat á hæfni nemenda er notaður kvarðinn A,B,C,D, þar sem A lýsir framúrskarandi hæfni, B lýsir góðri hæfni, C sæmilegri hæfni og D hæfni sem nær ekki viðmiðum sem lýst er í C.  Þá hefur verið bætt við kvarðann B+ og C+ sem getur nýst þegar nemendur hafa náð að hluta þeim viðmiðum sem lýst er í Aðalnámskránni varðandi A og B.  Ekki verða útbúin sérstök matsviðmið fyrir þessa viðbót heldur gildir það að sá sem hefur náð meginþorra B matsviðmiða og náð einstökum þáttum í A getur fengið B+ og sá sem hefur náð meginþorra C matsviðmiða og einstökum þáttum í B getur fengið C+. Á vef Menntamálastofnunar um fyrirkomulag á nýju námsmati kemur fram að nemandi sem fær A þarf að vera búin að ná öllum matsviðmiðum greinar.


Heimilt er að gefa lokið / ólokið í ákveðnum greinum.


Nemendur í 10. bekk útskrifast eftir  matskvarða Aðalnámskrár grunnskóla. Þann matskvarða er skólum skylt að nota við brautskráningu nemenda.


Lokamat er sem hér segir:

A      Framúrskarandi hæfni og frammistaða í námi með hliðsjón af hæfniviðmiðum námsgreinar eða námssviðs

B+     Hæfni er sambærileg þeirri lýsingu sem á við einkunnina B og að hluta til þeirri lýsingu sem á við einkunnina A

B       Góð Hæfni með hliðsjón af hæfniviðmiðum námsgreinar eða námssviðs

C+     Hæfni sambærileg þeirri lýsingu sem á við einkunnina C og að hluta til þeirri lýsingu sem á við einkunnina B

C       Sæmileg hæfni og frammistaða í námi með hliðsjón af hæfniviðmiðum námsgreinar eða námssviðs.

D      Hæfni og frammistöðu í námi ábótavant með hliðsjón af hæfniviðmiðum námsgreinar eða námssviðs.

 

Stjörnumerktar einkunnir fá þeir nemendur sem stundað hafa nám sitt að fullu eða að hluta eftir aðlagaðri námskrá og viðmiðum í samræmi við metnar sérþarfir, en

ekki samkvæmt hæfni og matsviðmiðum aðalnámskrár grunnskóla.


Nemendur í 1.-9. fá einnig einkunnir í bókstöfum en auk þess verður notast við matið lokið / ólokið í einhverjum greinum. 

 

Prenta | Netfang