Námsmat
Námsmat
Í Austurbæjarskóla er ástundað leiðsagnarmat, sjálfsmat, jafningjamat og lokamat sem framkvæmt er af kennara. Sjá nánari umfjöllun um leiðsagnarmat í starfsáætlun.
Nemendur í 4. og 7. bekk þreyta samræmd könnunarpróf í íslensku og stærðfræði í september.
Nemendur í 9. bekk þreyta samræmd könnunarpróf í íslensku, stærðfræði og ensku í mars.
Fylgst er með framförum nemenda í lestri með því að leggja Lestrarferil menntamálastofnunar fyrir alla nemendur skólans þrisvar sinnum á ári. Nemendum er boðið upp á hraðlestrarnámskeið til að bæta árangur sinn.
Í 1. bekk er Tove Krogh teikniprófið lagt fyrir nemendur. Þar er kannaður hugtakaskilningur, talnagildi, formskyn, fínhreyfingar, blýatnsgrip, fara eftir einföldum og flóknum fyrirmælum.
Í 2. bekk er Læsi lagt fyrir nemendur
Í 3. bekk er Talnalykill lagður fyrir nemendur.
Talnalykill er bæði staðlað og markbundið próf. Mælitölur prófsins gefa til kynna hvar nemandi stendur í samanburði við nemendur í sama árgangi eða bekk í einstökum þáttum stærðfræðinnar. Markbundin túlkun á niðurstöðu prófsins veitir upplýsingar um styrk og veikleika í kunnáttu nemanda í námsþáttum stærðfræðinnar.
Í aðalnámsskrá grunnskóla er kveðið á um nýjan matskvarða. Þar eru skilgreind matsviðmið sem lýsa þeirri hæfni sem liggur að baki hverri einkunn. Mat á hæfni byggir ekki eingöngu á mati á þekkingu nemandans eða leikni til að framkvæma, heldur getu hans til að skipuleggja, útskýra, túlka og nota hugtök um efni viðkomandi námsgreinar eða námssviðs.
Við mat á hæfni nemenda er notaður kvarðinn A,B,C,D, þar sem A lýsir framúrskarandi hæfni, B lýsir góðri hæfni, C sæmilegri hæfni og D hæfni sem nær ekki viðmiðum sem lýst er í C. Þá hefur verið bætt við kvarðann B+ og C+ sem getur nýst þegar nemendur hafa náð að hluta þeim viðmiðum sem lýst er í Aðalnámskránni varðandi A og B. Ekki verða útbúin sérstök matsviðmið fyrir þessa viðbót heldur gildir það að sá sem hefur náð meginþorra B matsviðmiða og náð einstökum þáttum í A getur fengið B+ og sá sem hefur náð meginþorra C matsviðmiða og einstökum þáttum í B getur fengið C+. Á vef Menntamálastofnunar um fyrirkomulag á nýju námsmati kemur fram að nemandi sem fær A þarf að vera búin að ná öllum matsviðmiðum greinar.
Heimilt er að gefa lokið / ólokið í ákveðnum greinum.
Nemendur í 10. bekk útskrifast eftir matskvarða Aðalnámskrár grunnskóla. Þann matskvarða er skólum skylt að nota við brautskráningu nemenda.
Lokamat er sem hér segir:
A Framúrskarandi hæfni og frammistaða í námi með hliðsjón af hæfniviðmiðum námsgreinar eða námssviðs
B+ Hæfni er sambærileg þeirri lýsingu sem á við einkunnina B og að hluta til þeirri lýsingu sem á við einkunnina A
B Góð Hæfni með hliðsjón af hæfniviðmiðum námsgreinar eða námssviðs
C+ Hæfni sambærileg þeirri lýsingu sem á við einkunnina C og að hluta til þeirri lýsingu sem á við einkunnina B
C Sæmileg hæfni og frammistaða í námi með hliðsjón af hæfniviðmiðum námsgreinar eða námssviðs.
D Hæfni og frammistöðu í námi ábótavant með hliðsjón af hæfniviðmiðum námsgreinar eða námssviðs.
Stjörnumerktar einkunnir fá þeir nemendur sem stundað hafa nám sitt að fullu eða að hluta eftir
aðlagaðri námskrá og viðmiðum í samræmi við metnar sérþarfir, en ekki samkvæmt hæfni og matsviðmiðum aðalnámskrár grunnskóla.
Nemendur í 1.-9. fá einnig einkunnir í bókstöfum en auk þess verður notast við matið lokið / ólokið í einhverjum greinum.
Samantekt á námmati fer fram tvisvar sinnum á ári, í lok haustannar og í lok vorannar.
Námsmat í Austurbæjarskóla er grundvallað á námi og kennslu sem byggir á hæfniviðmiðum sem sótt eru í aðalnámskrá grunnskóla. Hæfniviðmið hvers árgangs er að finna í kennsluskrá sem nálgast má á heimasíðu skólans. Vitnisburðarblöð nemenda fyrir haustönn eru aðgengileg nemendum og foreldrum á Mentor í möppu sem kallast „Námsmappa“ í janúar. Er þar um að ræða stöðumat – samantekt haustannar úr hverri námsgrein. Að vori er svo gefinn vitnisburður fyrir allt skólaárið úr hverri námsgrein fyrir sig. Lestur er þó tekinn út fyrir sviga og er gefið sérstaklega fyrir hann á vitnisburðarblöðum nemenda.