Nemendaviðtöl, nemendastýrð foreldraviðtöl, leiðsagnarnám

Meginmarkmið verkefnisins var sjálfsefling og fagmennska og samstarf. Með nemendaviðtölum og nemendastýrðum foreldraviðtölum öðlast nemandinn trú á eigin getu, lærir að þekkja styrkleika sína og veikleika ásamt því að setja sér markmið og fylgja þeim eftir. Veitir þetta nemandanum aukna vellíðan og stuðlar að aukinni færni og árangri hans utan skóla sem innan. Nemendastýrð foreldraviðtöl miða jafnframt að því að endurspegla seinna leiðarljós menntastefnu Reykjavíkurborgar þar sem fjallað er um barnið sem virkan þátttakanda. Markmið viðtalsins er valdefling nemenda, uppskeruhátíð námsins þar sem nemendur leiða og miðla vexti sínum og velja sjálfir upp að vissu marki hvað þeir vilja draga fram.

Fagmennska kennara byggir m.a. annars á því að veita kennurum rík tækifæri til starfsþróunar og markvissa ráðgjöf og handleiðslu í starfi. Með því að læra aðferðir markþjálfunar til notkunar í nemendasamtölum eykst færni kennara, þekking og öryggi í starfi með nemendum.

Hvað var gert:
Í upphafi fengu umsjónarkennarar kennslu og þjálfun í aðferðum markþjálfunar sem þeir nýttu í viðtölum við nemendur.  Hittu fyrirlesarar kennarahópinn þrisvar sinnum auk þess sem boðið var upp á einstaklingsmarkþjálfun og ráðgjöf á vef. Í kjölfarið tók hver umsjónarkennari alla sína umsjónarnemendur í  20 mín. langt einstaklingsviðtal. Hver nemandi fékk tvö slík viðtöl yfir skólaárið og notuðu kennarar almennt vikulega viðtalstíma sína fyrir viðtölin.

Kennarar fengu í fyrstu kynningu á nemendastýrðum foreldraviðtölum og unnu svo saman undir leiðsögn að því að ákveða hvernig viðtölin yrðu uppbyggð. Blað með leiðbeiningum til nemenda var útbúið. Fyrir foreldraviðtöl höfðu nemendur valið verkefnið úr hverri námsgrein sem þeir voru stoltir af. Í viðtalinu sýndu þau verkefnið, greindu frá því hvaða lærdóm þau höfðu dregið af því , sögðu hvað gekk vel og hvers vegna og hvað þeir hefðu getað gert betur eða á annan hátt.