Leiðsagnarmat, íslenska annað mál, nemendaviðtöl, nemendastýrð foreldraviðtöl (vaxtarviðtöl).
Leiðsagnarnám
Unnið hefur verið að innleiðingu leiðsagnarnáms í Austurbæjarskóla frá árinu 2017.
Markmið með verkefninu
Að stuðla að framförum og góðri námsmenningu hjá nemendum sem einkennist af væntingum og hugarfari vaxtar. Að nemendur séu meðvitaðir um eigið nám og geti tekið við leiðsögn/endurgjöf frá kennara og notfært sér hana.
Innihald verkefnisins
2-4 kennarar auk stjórnenda skipa innleiðingateymi sem stýrir þróun verkefnisins innan skólas. Verkefni teymisins er að sækja námskeið og fræðslu-og umræðufundi, skipuleggja og stýra fundum í skólanum, kynna sér lesefni o.fl., skipuleggja verkefni, úr verkefnabanka, sem á að vinna í skólanum, leiðbeina, fylgja eftir og fleira.
Verkefnið hefst á námskeiði sem haldið verður á símenntunardögum í ágúst. Markmið námskeiðsins, sem er sameiginlegt með 4 öðrum skólum, er að innleiðingarteymið öðlist góða þekkingu á markmiðum og megin áherslum leiðsagnarnáms og þeim rannsóknum sem leiðsagnarnámið byggir á og hvernig unnið verður að innleiðingu leiðsagnarnámsins. Teymið setur markmið fyrir skólann, leggur drög að grunnlínumælingu og gerir áætlun fyrir fyrstu lotu. Umsjónarmaður námskeiðsins er Nanna K. Christiansen.
Verkefninu er skipt í fimm lotur. Hver lota er 4 - 6 vikur. Í hverri lotu verður áherslan í megin dráttum á eftirfarandi:
- Námsmenning, námsvitund, væntingar og viðhorf
- Áhugi, námsmarkmið, viðmið og fyrirmyndir
- Skipulag
- Spurningatækni og samræður
- Endurgjöf
Innleiðingateymin stýra verkefnum, sem fengin eru úr verkefnabanka, og unnin verða af þátttakendum í hverri lotu. Hver lota (nema fyrsta) hefst á sameiginlegum 3 tíma fræðslu-og umræðufundi allra innleiðingarteyma, þar sem árangur síðustu lotu verður ræddur og metinn. Umbætur gerðar í samræmi við niðurstöður. Áherslur næstu lotu verða ræddar og leiðir að markmiði skoðaðar. Hvert teymi gerir sér áætlun. Umsjón: Nanna K. Christiansen.
Við upphaf hverrar lotu verður haldinn u.þ.b. klukkustundar fundur með þátttakendum í skólanum. Á fundinum verður árangur fyrri lotu skoðaður og dreginn af honum lærdómur. Áherslur og leiðir í næstu lotu verða kynntar. Markmiðið er að þátttakendur viti ekki aðeins hvað þeir eru að fara að gera heldur líka hvers vegna og hvaða áhrif það getur haft. Hugsanlega getur orðið um fleiri fundi að ræða ef innleiðingateymið leggur það til. Í hverri lotu veitir verkefnastjóri aðstoð í skólanum í samræmi við tillögur innleiðingarteymis allt að fjórar klukkustundir. Þar getur verið um að ræað fyrirlestra, þátttaka í skipulagningu eða mati, ráðgjöf við innleiðingarteymi eða annað.
Við lok skólaársins er matsfundur í skólanum þar sem farið verður yfir markmið og árangur skólaársins og gerð áætlun fyrir næsta skólaár. Umsjón: Innleiðingarteymin og Nanna K. Christiansen
Íslenska sem annað mál
Verkefnið lítur að því að styðja kennara í starfi sínu með nemendum sem hafa íslensku sem annað mál. Um er að ræða fræðslu og kennsluráðgjöf. Leiðbeint verður með hagnýtar aðferðir til að koma til móts við þarfir nemenda með annað móðurmál. Áhersla er lögð á bekkjarstarfið og m.a. kynntar aðferðir sem auka orðaforða nemenda í öllum námsgreinum. Í skóla þar sem tæplega 50% nemenda er með íslensku sem annað mál og stór hluti þeirra byrjendur í íslensku er afar mikilvægt að kennarar séu vel að sér þegar kemur að kennslu og þjónustu við nemendur með íslensku sem annað mál – ekki hvað síst í hefðbundnum bekkjaraðstæðum þar sem þessir nemendur læra íslensku í tengslum við aðrar námsgreinar.
Nemendastýrð foreldraviðtöl - vaxtarviðtöl
Með nemendastýrðum foreldraviðtölum kveður við nýjan tón í foreldraviðtölum í Austurbæjarskóla. Í þeim er nemandinn í aðalhlutverki og stýrir samtalinu. Viðtölin fara ýmist fram á íslensku eða á móðurmáli nemandans. Nánar um útfærslu nemendastýrðra foreldraviðtala, sjá hér.
Nemendaviðtöl
Meginmarkmið nemendaviðtala er sjálfsefling og fagmennska og samstarf. Með nemendaviðtölum og nemendastýrðum foreldraviðtölum öðlast nemandinn trú á eigin getu, lærir að þekkja styrkleika sína og veikleika ásamt því að setja sér markmið og fylgja þeim eftir. Veitir þetta nemandanum aukna vellíðan og stuðlar að aukinni færni og árangri hans utan skóla sem innan. Nemendastýrð foreldraviðtöl miða jafnframt að því að endurspegla seinna leiðarljós menntastefnu Reykjavíkurborgar þar sem fjallað er um barnið sem virkan þátttakanda. Markmið viðtalsins er valdefling nemenda, uppskeruhátíð námsins þar sem nemendur leiða og miðla vexti sínum og velja sjálfir upp að vissu marki hvað þeir vilja draga fram.
Fagmennska kennara byggir m.a. annars á því að veita kennurum rík tækifæri til starfsþróunar og markvissa ráðgjöf og handleiðslu í starfi. Með því að læra aðferðir markþjálfunar til notkunar í nemendasamtölum eykst færni kennara, þekking og öryggi í starfi með nemendum.
Hvað var gert:
Í upphafi fá umsjónarkennarar kennslu og þjálfun í aðferðum markþjálfunar sem þeir nýta í viðtölum við nemendur. Hitta fyrirlesarar kennarahópinn þrisvar sinnum auk þess sem boðið er upp á einstaklingsmarkþjálfun og ráðgjöf á vef. Í kjölfarið tekur hver umsjónarkennari alla sína umsjónarnemendur í 20 mín. langt einstaklingsviðtal. Hver nemandi fær tvö slík viðtöl yfir skólaárið og nota kennarar almennt vikulega viðtalstíma sína fyrir viðtölin.
Að lokinni kynningu á nemendastýrðum foreldraviðtölum unnu kennarar svo saman að því að ákveða hvernig viðtölin yrðu uppbyggð. Blað með leiðbeiningum til nemenda hefur verið útbúið og er endurskoðað árlega. Fyrir foreldraviðtöl velja nemendur verkefni sem þeir hafa unnið og eru stoltir af. Í viðtalinu sýna þau verkefnið, greina frá því hvaða lærdóm þau hafa dregið af því , segja hvað gekk vel og hvers vegna og hvað þeir hefðu getað gert betur eða á annan hátt.
Mat
Nemendasamtöl. Árangur verkefnisins er metinn af hópi allra umsjónarkennara. Þá er lagt mat á samband nemenda við kennara sem mælt er með Skólapúlsi. Árangur nemendastýrðra foreldraviðtala er metin með könnun til foreldra og með Skólapúlsi þar sem metin er ánægja foreldra með foreldrasamtöl.
Ávinningur verkefnanna fyrir börn
Megin ávinningurinn fyrir nemendur er sjálfsefling. Þá er mikilvægt fyrir nemendur að tjá sig um eigin nám auk þess sem nemendaviðtölin hafa mjög jákvæð áhrif á skólabrag sem styður við nám nemenda og eykur vellíðan þeirra.