Hollvinafélag Austurbæjarskóla

Umsvif Hollvinafélagsins hafa frá stofnun beinst að sögu skólans og varðveislu merkra muna í eigu hans. Formlegur stofnfundur var haldinn þann 6. febrúar 2010.  Tilgangur félagsins er að starfsrækja skólamunastofu í Austurbæjarskóla og skrásetja sögu skólans. Einnig að styðja og styrkja menningarstarfsemi innan Austurbæjarskóla og skylda starfsemi innan skólahverfisins.  Hvatinn að stofnun félagsins var sá að skólinn státar af langri og merkri sögu og í áranna rás hafa safnast margir merkilegir munir sem tengjast sögu skólans.  Það þótti því vel við hæfi að stofna formlegan hóp hollvina, sér í lagi í ljósi þess að haustið 2010 varð skólinn 80 ára.  

Í undirbúningi er að skrásetja skjalasafn og verkefni, bæði nemenda og kennara, eftir skráningarkerfi sem Reykjavíkurborg leggur til. Í herbergi undir skrifstofu aðstoðarskólastjóra (áður yfirkennara) hefur verið komið fyrir gögnum er varða sögu skólans.

Öllum þeim sem styðja markmið félagsins og vilja veg og virðingu Austurbæjarskólans sem mesta er frjálst að ganga í félagið, s.s. starfsmönnum, fyrrum starfsmönnum, nemendum, foreldrum og öðrum velunnurum skólans. Árgjald til félagsins er kr. 2.000. Þeir sem greiða árgjald hvers árs eru taldir fullgildir félagar og einungis þeir hafa atkvæðisrétt á aðalfundi félagsins.

Prenta | Netfang