Austurbæjarskóli hlýtur Hvatningarverðlaun skóla-og frístundaráðs

Á hverju ári veitir skóla-og frístundaráð Reykjavíkur verðlaun fyrir nýbreytni-og þróunarverkefni í skóla-og frístundastarfi í Reykjavík. Verðlaunin eru veitt fyrir verkefni sem þykja skara fram úr og vera til eftirbreytni.

Í ár hlaut Austurbæjarskóli verðlaunin fyrir verkefnið „Plánetur og geimskutlur; vaxtarsproti samþættingar í kennslu“. Verkefnið, sem miðar að því að stuðla að jákvæðri námsmenningu og hugarfarari vaxtar, byggir á samþættingu námsgreina og er unnið sem þemaverkefni. Það er unnið í 3. bekk, árgangi er blandað saman og unnið í hringekju.

Við óskum kennurunum Kristínu Björgu Knútsdóttur, Olgu Maríu Ólafsdóttur og Katrínu H. Jónsdóttur innilega til hamingju með viðurkenninguna. En þess má geta að það var Elín Bjarnadóttir kennari sem tilnefndi.